Doritos kjúklingur og gamla góða eplakakan
Það eru þau Stefanía Ósk Pálsdóttir og Bjarki Þór Svavarsson sem voru matgæðingar vikunnar í tbl 25, 2023, en þau eiga tvær stelpur, þær Hafdísi Hrönn og Ásdísi Pálu. Stefanía og Bjarki eru bæði frá Króknum og eru búin að koma sér vel fyrir á þar því það kom ekki neinn annar staður til greina að búa á. Stefanía er sjálfstætt starfandi og rekur Eden snyrti- og fótaaðgerðastofu og Bjarki vinnur hjá Skagafjarðarveitum. „Okkur finnst einstaklega gaman að elda og baka og höfum oft fjölskyldudag þar sem við bökum öll saman. Við ætlum að deila með ykkur auðveldum kjúklingarétti sem klikkar aldrei og mjúkri og góðri eplaköku sem er einstaklega góð heit,“ segir Stefanía.
AÐALRÉTTUR
Doritos kjúklingur
1 pakki kjúklingalundir
sweet chili sósa
blár Doritos
Aðferð: Veltið kjúklingalundum upp úr sweet chili sósu. Síðan er Doritos mulið niður og kjúkling næst velt upp úr því. Raðað í eldfast form og matarolíu hellt smá yfir. Eldað á 150°C á blæstri þar til Doritos-ið fer að taka lit. Gott að bera fram með sætum kartöflum, fersku salati og ostasósu (Mexíkó steyptur ostur og matreiðslurjómi). Til að gera sósuna enn betri er gott að setja villtan kraft og rifsberjahlaup eftir smekk.
EFTIRRÉTTUR
Gamla góða eplakakan
200 g smjör (við stofuhita)
3 egg
4 dl hveiti
2 ½ dl sykur
1 tsk. lyftiduft
1 dl rjómi
1 ½ tsk. vanilludropar
2 græn Granny Smith-epli
kanilsykur
Aðferð: Byrjið á því að flysja epli, kjarnhreinsa og skera í bita. Hrærið saman smjör og sykur í ljósa blöndu. Hrærið næst eggin saman við, eitt í einu. Blandið hveiti og lyftidufti saman og hrærið síðan út í blönduna. Loks er rjóma og vanilludropum hrært saman við. Setjið í smurt 24 sm form. Stingið eplabitunum ofan í deigið og sáldrið loks um tveimur matskeiðum af kanilsykri yfir. Bakið við 175°C í um 45 mínútur. Leyfið að kólna aðeins og berið fram með þeyttum rjóma.
Verði ykkur að góðu!
Stefanía Ósk og Bjarki Þór skoruðu á Ingunni Söndru og Birgi Ingvar að gefa lesendum eitthvað spennandi og gómsætt til að spreyta sig á.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.