Utís menntaráðstefnan haldin á Sauðárkróki í sjötta sinn

Þátttakendur á Utís 2021. LJÓSMYNDIR: DAVÍÐ MÁR SIGURÐSSON
Þátttakendur á Utís 2021. LJÓSMYNDIR: DAVÍÐ MÁR SIGURÐSSON

Síðastliðinn föstudag fjölmenntu kennarar og skólastjórnendur á Utís menntaráðstefnuna á Sauðárkróki sem Ingvi Hrannar Ómarsson hefur veg og vanda af. Að þessu sinni mættu um 190 kennarar og skólastjórnendur frá u.þ.b. 70 skólum landsins til leiks en níu erlendir fyrirlesarar og þrír íslenskir voru með fyrirlestra og vinnustofur. Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga og tókst með miklum ágætum.

„Utís tókst mjög vel, skipulagið hjá Ingva Hrannari var algjörlega til fyrirmyndar að öllu leiti,“ tjáði Álfhildur Leifsdóttir Feyki en hún kennir við Árskóla og hefur ásamt fleirum aðstoðað Ingva Hrannar við framkvæmd þessa magnaða menntaviðburðar sem Utís er.

Hvað var helst tekið fyrir að þessu sinni? „Það var mikil fjölbreytni í boði, bæði hvernig hægt er að nýta tækni til náms en ekki síður hvernig er hægt að bæta líðan nemenda og áhuga á námi óháð tækni. Utís ráðstefnurnar hafa síðustu ár færst frá því að vera tæknimiðaðar yfir í að vera nemendamiðaðar, sem er vel.“

Nú er ekki annað að sjá en að þátttakendur elski Utís, hver er galdurinn við þessa ráðstefnu? „Galdurinn er krafturinn og orkan sem verður til í þessum hópi skólafólks. Það er svo magnað að hitta aðra sem brenna líka fyrir starfinu sínu og vilja breytingar í skólastofurnar til að koma enn betur til móts við þarfir nemenda sinna. Tengslanetið stækkar og þessir kennarar halda áfram að deila þekkingu og reynslu sín á milli. Það vilja allir verða partur af þessari frábæru vegferð,“ segir Álfhildur.

Um 300 kennarar og skólafólk á biðlista

„Þetta var geggjað!“ sagði höfuðpaurinn, Ingvi Hrannar, stofnandi og skipuleggjand Utís, þegar Feykir hafði samband. „Og gaman að gera þetta í Skagafirði og fá hingað níu erlenda fyrirlesara.“ Fyrirlesararnir voru einnig með fræðslu fyrir kennara og starfsfólk grunnskólanna í Skagafirði á fimmtudaginn en þá var starfsdagur í skólunum. Aðspurður um hvort Covid hafi flækst fyrir viðburðinum segir Ingvi að allir þátttakendur hafi verið með grímur, allir farið í hraðpróf og allir komu bólusettir. „Og fullt annað sem flækir þetta eins og hvernig við afgreiðum mat, hugsa um að hafa sem minnst af sameiginlegum snertiflötum, spritt, allir fengu sína margnota bolla, allir með merktar grímur o.s.frv.“

Það er talsverð innspýting inn í samfélagið þegar stór ráðstefna eins og Utís er haldin á svæðinu en Ingvi nefnir til dæmis að þátttakendur hafi gist á Hótel Tindastóli, Miklagarði, Grand-inn Guesthouse, 10b Guesthouse, Hótel Varmahlíð, Karuna Guesthouse og á Hofsstöðum.

Sjá mátti á viðbrögðum þátttakenda á samfélagsmiðlum að þeir gátu vart leynt ánægju sinni með þennan menntaviðburð en Ingvi Hrannar segir að það sé umsóknarferli og um 300 kennarar séu á biðlista eftir þátttöku á Utís.

Hægt er að kíkja á viðbrögð við Utís á Twitter > #utis2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir