Sumardagur í Glaumbæ – bókaútgáfa og listasýning
Myndlistarsýning í tilefni útgáfu barnabókarinnar „Sumardagur í Glaumbæ“ var opnuð um helgina í Áshúsinu í Glaumbæ. Útgefandi bókarinnar er Byggðasafn Skagfirðinga, myndskreytingar eru eftir franska listamanninn Jérémy Pailler og textahöfundur er Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri. „Það er dásamlegt tilfinning að fagna áföngum sem þessum,“ sagði Berglind þegar hún bauð gesti velkomna í útgáfuhófið.
Berglind sagði hugmyndina að verkefninu hafi kviknað þegar Jérémy dvaldi í listabúðum í Kakalaskála en hann á einnig listaverk þar, en hann hafði tvisvar áður dvalið í Nes listamiðstöð. „Við kynntumst í Kakalaskála og þegar hann heimsótti Glaumbæ heillaðist hann af bænum og fékk hugmyndina að bókinni. Eftir nokkur samtöl mótaðist hugmyndin og við urðum sífellt spenntari fyrir henni, þá var næsta skref að sækja um styrki, sem við fengum frá Uppbyggingasjóði SSNV og Safnasjóði og erum mjög þakklát fyrir,“ sagði hún og hélt áfram: „Ferlið gekk í raun lygilega vel fyrir sig, fyrir utan það smávegis vesen sem Covid hefur skapað, en við aðlöguðum verklagið að því. Í stað þess að Jérémy kæmi í frumstigum bókarinnar, sem frestaðist tvisvar vegna faraldursins, þá kom hann nú og við gátum sett saman þessa listasýningu sem er skemmtilegur bónus.“
Áhersla er lögð á sanngildi við gerð bókarinnar og lagðist Berglind í heimildarvinnu fyrir textaskrifin, fór yfir smárit safnsins til að fá hugmyndir að skemmtilegum persónum í Glaumbæ, Skagfirzkar æviskrár, ævisögur, ísmús.is svo dæmi sé tekið. Einnig þurfti að safna saman myndum fyrir Jérémy til að styðjast við um útlit fatnaðs og gripa, hvernig Glaumbær leit út undir lok 19. aldar en t.a.m. er Glaumbæjar myndin hans unnin eftir skissu Daniels Bruun frá 1896.
Væri gaman að gera „Vetrardag í Glaumbæ“
„Þegar helstu heimildaröfluninni var lokið fór ég eitt kvöldið upp í gamla bæ og settist niður í Prestshúsinu og sagan skrifaði sig nánast sjálf. Ferlinu var auðvitað ekki þar með lokið, við tók mikil skissuvinna hjá Jérémy sem sendi þær til yfirferðar og þær voru sendar fram og til baka nokkrum sinnum. Inga Katrín, Ylfa, Hrönn og Bryndís, starfsfólk safnsins lásu yfir textann u.þ.b milljón sinnum og komu með dýrmætar ábendingar. Einnig Sigríður Sigurðardóttir fyrrum safnstjóri og Guðmundur Stefán maðurinn minn, og svo börnin mín sem fengu að vera tilraunadýr. Jafnframt kom Laufey Leifsdóttir með mjög góðar ábendingar og ráð, ekki síst við að benda okkur á Prentmiðlun, mjög faglegir og gerðu fallega prentun, og ekki síst fyrir það að þeir voru helmingi ódýrari sem gerði það að verkum að við ákváðum að bæta við fjórða tungumálinu, þýsku. Evelyn Kuhne frá Lýtingsstöðum var ekki lengi að snara textanum yfir á þýsku, Brenda fornleifafræðingur safnsins þýddi hann á ensku og Jérémy á frönsku.
Öllum þeim sem hjálpuðu til við gerð þessarar bókar færi ég fyrir hönd safnsins, kærar þakkir,“ sagði Berglind og þakkaði einnig Jérémy fyrir að koma með þessa snilldarhugmynd og að vera með okkur við að setja saman þessa sýningu í Áshúsi. „Hann er ótrúlega hæfileikaríkur listamaður og við svo ótrúlega lánsöm að hafa fengið að njóta þess með þessum gullfallegu myndum sem ég er viss um að eiga eftir vera haldið lengi á lofti og bera hróður Glaumbæjar lengi vel. Fyrir utan það, þá er hann líka dásamleg persóna og yndislegt að vinna með honum, það er í raun ekki orðum aukið eins og ég nefndi áðan hversu ljúflega þetta ferli gekk fyrir sig. Svo vel að við höfum jafnvel rætt það ef þessari bók vegnar vel, þá væri gaman að gera „Vetrardag í Glaumbæ“ með fókusinn á Jóhönnu – en við sjáum til með það,“ sagði Berglind að endingu, áður en hún bauð gestum að bera sýninguna augum.
Listaverk Jérémy Pailler býðst áhugasömum til kaups og mun sýningin standa til 20. október. Bókin fæst hjá Byggðasafni Skagfirðinga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.