Skagfirskur flugmaður lendir þotu á Suðurskautslandinu

Ingvar við Icelandair-þotuna á Suðurskautslandinu. MYNDIR: INGVAR ORMARS
Ingvar við Icelandair-þotuna á Suðurskautslandinu. MYNDIR: INGVAR ORMARS

Það er ekki á hverjum degi sem flugmaður með ættartréð að hálfu rótfast í Fljótum lendir á Suðurskautslandinu en sú var nú eigi að síður raunin í vikunni. Það er sennilega alveg óhætt að fullyrða að Ingvar Ormarsson, flugmaður Icelandair og fyrrum 3ja stiga skytta Tindastóls, sé fyrsti Fljótamaðurinn til að lenda þotu á þeirri snjóhvítu álfu hnattarins. Feykir setti sig að sjálfsögðu í samband við kappann að ferðalagi loknu og komst meðal annars að því að hann var í síðum.

Ingvar er fæddur og uppalinn á Króknum og spilaði með liði Tindastóls í körfunni upp úr 1990. Skipti síðan yfir í KR þegar haldið var í víking suður yfir heiðar og var síðar valinn í íslenska landsliðið. Hann hefur starfað sem flugmaður síðan 2003 og býr nú í Mosó.

Á síðunni Simple Flying segir að þar sem sumarvertíðin á Suðurskautslandinu sé komin vel af stað hafi Icelandair aðstoðað við að flytja hóp vísindamanna þangað. Icelandair notaði eina af Boeing 767 vélum sínum til verksins og flaug þangað frá Keflavík um Osló og Höfðaborg. Síðasti áfangi ferðarinnar tók rúmlega sex klukkustundir og náði hámarki með lendingu á ísflugbraut.

Feykir spurði Ingvar, sem er yngri sonur Lovísu og Ormars í Barmahlíðinni á Króknum, hvernig upplifun það hafi verið að fljúga yfir Suðurskautslandið. -Upplifunin var alveg mögnuð og útsýnið var mjög gott. Þegar við vorum búnir að fljúga í ca. 3 til 4 tíma frá Cape Town (Höfðaborg) þá fór ísröndin að birtast. Fastalandið, suðurskautið sjálft, byrjar svo ca. 270 km frá Troll þar sem við lentum.

Var hnútur í maganum þegar lent var á ísbreiðunni? -Það var frekar fiðrildi í maganum heldur en hnútur. Við vorum búnir að fara í flughermi til að æfa okkur fyrir ferðina. Ísbreiðan er 600 metrar til 1 km á þykkt! Þannig að maður hafði nú ekki miklar hyggjur af henni. Vélin var um 133 tonn og við á ca. 250 km hraða í lendingunni. Ein aðal hættan þegar flogið er inn á svona ís er það sem er kallað white out. Þá er skýjafarið þannig að það er erfitt að greina á milli hvað er himinn (ský) og jörðin (snjórinn). En þegar við komum þá var mjög bjart og skýrt og þetta ekki vandamál.

Lent kl. 13 að staðartíma á þriðjudaginn

Ferðin að suðurodda plánetunnar tók nokkra daga og hófst fyrr í vikunni eða þann 15. nóvember. Þetta var stysti hlutiferðarinnar en fyrst var flogið til Noregs til að sækja rannsakendur.

Samkvæmt frásögn Simple Flying var farið frá Keflavík klukkan 8:50 á mánudag og lent á Gardermoen flugvelli í Osló rúmum tveimur tímum síðar, klukkan 12:02 að staðartíma. Aftur var farið í loftið klukkan 16:50 með rannsakendur um borð. Þá tók við lengsti áfangi Icelandair flugs FI1010 en það tók tæpar 13 klukkustundir að fljúga beint til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Flugvélin lenti í næststærstu borg landsins kl. 06:42 morguninn eftir, eftir 12 klukkustundir og 52 mínútur í loftinu.

Athyglisverðasti hluti ferðarinnar var auðvitað síðasti áfanginn, frá Suður-Afríku til Suðurskautslandsins. Meirihluti þess áfanga er yfir Suður-Íshafið og tók síðasti hluti þessa stórkostlega ferðalags sex klukkustundir og 13 mínútur og lentu því Ingvar og félagar þotunni góðu klukkan 13:00 að staðartíma sl. þriðjudag.

Í síðar í öryggisskyni

Fer flugmaðurinn í síðar þegar skotist er rúnt á Suðurskautslandið? -Það þurftu allir að fara í síðar. Um klukkutíma fyrir lendingu þá fóru bæði áhöfn, alls níu manns, og allir farþegar í útigallana, þ.e. síðar, langar, snjóbuxur og því sem tilheyrir að klæðast á Suðurskautinu. Þetta er gert í öryggiskyni, ef eitthvað kemur upp á í lendingu þá þarf fólk ekki að fara út í léttum klæðnaði,“ segir Ingvar.

Flug Icelandair til Suðurskautslandsins gegna lykilhlutverki í því að halda Trölla-rannsóknarstöðinni gangandi en þetta var í annað skiptið sem Icelandair sinnir þessu verkefni. Auk þess að fljúga þangað með rannsóknarfólk eru einnig fluttar vistir fyrir starfsmenn stöðvarinnar. Þó Suðurskautslandið sé fallegur staður var staldrað stutt við, því vélin var drifin í loftið klukkan 14:45 eftir tæpa tvo tíma á jörðu niðri.

Hér fylgja nokkrar myndir sem Ingvar tók á ferðalaginu sem hann segir hafa verið einn allra skemmtilegasta flugtúrinn á ferlinum.

- - - - -

Í fréttinni er stuðst við upplýsingar í grein úr Simple Flying > 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir