Ræningjar og rassálfar, nornir og grádvergar - Leikfélag Sauðárkróks setur Ronju ræningjadóttur á svið

Uppfærsla LS á Ronju ræningjadóttur krefst fjölmenns leikhóps en 24 leikarar stíga á svið í hinum ýmsu gervum. Hér eru Elva Björk Guðmundsdóttir, Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir og Sólveig Fjólmundsdóttir í hlutverkum sínum að sinna ræningjanum sem Hlífar Óli Dagsson leikur.Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.
Uppfærsla LS á Ronju ræningjadóttur krefst fjölmenns leikhóps en 24 leikarar stíga á svið í hinum ýmsu gervum. Hér eru Elva Björk Guðmundsdóttir, Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir og Sólveig Fjólmundsdóttir í hlutverkum sínum að sinna ræningjanum sem Hlífar Óli Dagsson leikur.Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.

Leikfélag Sauðárkóks frumsýnir nk. föstudag í Bifröst barnaleikritið Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur.

„Ronja er eitt af mörgum frábæru leikverkum Astridar en hefur kannski ekki náð alveg sama flugi og önnur eins og t.d. Lína Langsokkur og Emil í Kattholti, sem mér finnst persónulega skrýtið því Ronja er bæði fjörugt og fallegt leikverk og það sama má segja um tónlistina í verkinu,“ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður LS.

Ronja ræningjadóttir fjallar um dóttur ræningjaforingjans Mattíasar og hvað gerist þegar hún tekur upp á því að vingast við Birki, son Borka erkióvinarins. „Við kynnumst þeim Ronju og Birki og þeirra ævintýrum, við kynnumst skemmtilegum ræningjaflokkum ásamt nornum, rassálfum, grádvergum og hermönnum en sagan segir okkur hversu mikilvæg vináttan er í blíðu og stríðu og einnig að það er allt miklu skemmtilegra þegar allir eru sáttir og allt leikur í lyndi.“

Þröngt mega sáttir leika

Alls taka 24 leikarar þátt í 33 hlutverkum en alls koma um 60 manns að sýningunni svo forvitnilegt er að vita h vernig gangi að koma öllu þessu fólki fyrir á sviðinu í Bifröst.

„Það er skítlétt, þetta er svo rosalega stórt svið,“ segir formaðurinn sposk á svip: „En svona að öllu gamni slepptu þá gengur það furðuvel, sérstaklega eftir að ég náði að töfra það fram að framlengingin á sviðinu kæmi aftur með samstarfi við gott fólk.“
Hún segir vel hafa gengið að manna hlutverk og fá fólk í bakvarðasveitina en alltaf sé hægt að bæta við sveitina.
„Við hjá LS erum ótrúlega rík af frábæru og duglegu fólki sem hefur mikinn metnað og áhuga á að starfa með okkur aftur og aftur í leiksýningum. Einnig er frábært að við erum líka að fá nýtt fólk inn í hópinn. Það er alls ekki sjálfgefið að fólk gefi ótrúlega mikið af tíma sínum og setji margt annað á bið sem þarf að gera þegar maður tekur þátt í leikritum. En sem betur fer er líka mjög gefandi, lærdómsríkt og skemmtilegt að vera með og þetta allt verður til þess að við náum að halda úti frábæru starfi. Stjórn félagsins, leikstjóri og allur leikhópurinn, innan sviðs sem utan, leggur á sig gríðarlega vinnu til þess að bjóða upp á blómlegt menningarstarf og fyrir það er ég sem formaður ótrúlega stolt og þakklát.“

Ógnandi óvættir

Sigurlaug Dóra hvetur fjölskyldur til að koma saman í leikhús og upplifa frábæra menningu saman og styrkja í leiðinni frábært starf leikfélagsins. Hún vill líka lauma því að foreldrum að undirbúa unga leikhúsgesti fyrir sýninguna: „Þó að Ronja sé full af fjöri og gleðisprengjum þá gætu t.d. nornir og grádvergar alveg látið einhverjum bregða en ef þetta er vel útskýrt þá gengur þetta vel. Einnig vil ég hvetja fólk til að huga vel að sóttvörnum því C-19 er alls ekki búið en ef allir passa sig þá er þetta vel gerlegt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir