Opið hús í Grunnskóla Húnaþings vestra
Fyrr í haust var tekinn í notkun hluti nýrrar viðbyggingar við Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga. Að því tilefni verður opið hús í skólanum á morgun, þriðjudaginn 14. desember, frá kl. 16–18 og gefst íbúum og gestum tækifæri til að skoða nýbygginguna en í viðbyggingunni er mötuneyti, fjölnota salur, rými fyrir frístundir, skrifstofur skólastjórnenda og Tónlistarskóli Húnaþings vestra. Feykir tók púlsinn örsnöggt hjá Sigurði Ágústssyni skólastjóra.
Hvað breytist með tilkomu nýrrar viðbyggingar? „Breytingin er mikil fyrir nemendur og starfsfólk í skólunum. Nú þurfa nemendur ekki lengur að fara í félagsheimili í matartímum og öll kennsla tónlistarskólans er innan sömu byggingar. Það auðveldar allt utanumhald og samstarf. Þegar allt húsnæðið verður tekið í notkun í apríl verður hægt að kenna allar námsgreinar innan skólans og list- og verkgreinar fá sér stofu sem hefur ekki verið fram að þessu. Þetta er stórhuga framkvæmd þar sem hugsað er til framtíðar og fermetrafjöldi skólans tvöfaldast.“
Hvað gerist á opnum degi? „Á opnum degi býðst íbúum sveitarfélagsins að skoða þann hluta skólans sem hefur þegar verið tekinn í notkun. Í þeim hluta eru skrifstofur, sérstakt rými fyrir frístundastarf, matsalur og eldhús og tónlistarskóli,“ segir Sigurður en í grunnskólanum eru 150 nemendur og um 80 nemendur stunda nám við tónlistarskólann.
Aðspurður um hvað einkenni Grunnskóla Húnaþings vestra og starf nemenda skólans telur Sigurður ýmislegt til eins jákvæðan aga, áherslu á kynningu á héraði í námi nemenda, góðan stuðning við nemendur með stoðþjónustu og stuðningsfulltrúum, leiðsagnarmiðað nám þar sem nemendur eru hvattir til að taka ábyrgð. Sömuleiðis móttökufósturnemenda, samstarf við skólana í A- Hún um endurmenntun og samstarf við leikskólann Ásgarð.
Þá nefnir hann að nemendaráð er mjög virkt um málefni skólans, söngvarakeppni skólans er gert hátt undir höfði og árshátíð þar sem áhersla er á að allir nemendur stígi á svið auk þess sem árviss danskennsla er fyrir alla árganga. Einnig er áhersla á samstarf við tónlistarskóla í sömu byggingu, samstarf við íþrótta- og tómstundafélög og þátttaka nemenda í atvinnulífi héraðsins.
Það eru allir velkomnir á opið hús í skólanum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.