Öll börn verða stór - öll nema eitt - Leikflokkur Húnaþings vestra setur upp Pétur Pan

Þegar leiðtogi týndu barnanna, Pétur Pan, týnir skugga sínum í heimsókn til Lundúna, hjálpar hin ákveðna Vanda honum að festa skuggann aftur við sig. Í staðinn er henni boðið til Hvergilands. Þetta ævintýri fá áhorfendur að upplifa í Félagsheimili Hvammstanga 11. – 14. desember nk. en Leikflokkur Húnaþings vestra setur upp þetta sígilda ævintýri um eilífðarstrákinn hrekkjótta.

Í tilkynningu frá Leikflokknum segir að árið 1904 hafi JM Barrie frumsýnt eitt mesta ævintýri sem nokkru sinni hefur verið leikið á sviði. Uppfullt af hafmeyjum, sjóræningjum og álfum, ættbálki týndra barna og krókódílum, stútfullt af töfrum og tiltækjum. Pétur Pan er fyndin og áhrifamikil sviðsetning á sögu sem er elskuð og dáð og hentar verkið áhorfendum á öllum aldri.

„Við fylgjumst með ævintýrum Péturs Pans og uppátækjasömu álfavinkonu hans, Skellibjöllu, þegar þau heimsækja börn í Lundúnum kvöld eitt, eftir að skyggja tekur. Með hjálp örlítils álfaryks hefja þau töfrandi ferð meðal stjarnanna sem ekkert þeirra mun nokkurn tíma gleyma. Allt frá tifandi krókódílum til grimma stríðsmanna, brjálaðra sjóræningja og sjálfs illmennisins Króks kafteins, þetta skemmtilega og sígilda ævintýri mun gleðja alla aldurshópa. Pétur Pan er fullkomin sýning fyrir barnið eilífa í okkur öllum!“

Þýðandi leikritsins er Karl Ágúst Úlfsson en Greta Clough sá um leikgerð og leikstýrir verkinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir