Nóg að sýsla í Grunnskólanum austan Vatna
Feykir hefur örlítið dundað við að heimsækja heimasíður grunnskólanna hér á Norðurlandi vestra upp á síðkastið og nú kíkjum við á fréttir úr Grunnskólanum austan Vatna sem starfræktur er á Hofsósi og Hólum. Síðust viku nóvembermánaðar var áhugasviðs- og dansvika í skólanum en þá voru allir nemendur saman komnir á Hofsósi þar sem þeir voru í viðfangsefnum sem þau höfðu valið sér sjálf.
Stöðvarnar sem hægt var að velja um voru; íþróttir/líkamsrækt, fróðleikur, farartæki/vísindi/rafmagn, listasmiðja, smíði og föndur/skartgripagerð/bakstur. Vinna vikunnar var fjölbreytt og tókst vel til samkvæmt frétt á vef skólans.
Fyrr í nóvember hélt nemendafélag skólans Halloween-ball fyrir nemendur 1.-7. bekkjar og að auki var skólahópnum boðið. Óhætt er að segja að það hafi verið frábær mæting og stemningin í húsinu var mikil, þar sem nemendur dönsuðu hreinlega úr sér lungun.
Engin Jólavaka í ár
Á undanförnum árum hefur Grunnskólinn austan Vatna tekið þátt í vinaliðaverkefninu en það er verkefni sem snýst um að nemendur haldi utan um leiki í frímínútum í skólanum svo að allir krakkar geti tekið þátt í leik. Eftir að nemendur höfðu kosið vinaliða í grunnskólanum þá skelltu þeir sér á vinaliðanámskeið á Sauðárkrók.
Að lokum má geta þess að heimsfaraldur Covid-19 hrellir okkur enn og varð nú til þess að árlegri jólavöku Grunnskólans austan Vatna hefur verið aflýst en til stóð að Jólavakan færi fram 16. desember. Það koma væntanlega aðrir og betri tímar og önnur jól.
Heimildir og myndir: gav.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.