Ljósin tendruð og jólin færast nær
Í upphafi skóladags héldu nemendur Árskóla á Sauðárkróki í árlega friðargöngu út í bæ. Morguninn tók fallega á móti krökkunum, veðrið var stillt þó sannarlega væri nokkuð kalt. Friðarljósið var síðan fært upp Kirkjustíginn og staðnæmdist loks við krossinn á Nöfunum og síðan voru ljósin á honum tendruð. Viðburður sem jafnan kveikir jólaneistann í hugum flestra Króksara.
Að athöfn á Nöfum lokinni færðu krakkarnir sig niður á Kirkjutorg þar sem þau kveiktu á jólatrénu. Jólatréð fór reyndar ekki langa leið á torgið en það var áður rótfast í Sauðárhlíðinni, fellt af starfsmönnum bæjarins með aðstoð Þ. Hansen ehf. Þegar öll ljós höfðu verið tendruð héldu krakkarnir á ný í skólann þar sem þeirra beið heitt kakó og veitingar í bekkjarstofum.
Feykir minnir síðan fólk á að taka endilega þátt í óhefðbundinni aðventudagskrá helgarinnar >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.