KS áfram með matargjafir fyrir jólin
Fyrir síðustu jól og fram eftir þessu ári hefur Kaupfélag Skagfirðinga gefið matvæli sem dugað hafa í nærri 200 þúsund máltíðir en um er að ræða kjöt- og mjólkurvörur, grænmeti, kartöflur og brauð. „Það hefur orðið að samkomulagi á milli kaupfélagsins og hjálparstofnana að halda þessu samstarfi áfram núna í aðdraganda jólanna,“ segir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri í samtali við Morgunblaðið um síðustu helgi en KS mun áfram gefa matvæli til nokkurra hjálparstofnana hér á landi.
Í fréttinni segir að upphaflega hafi staðið til að gefa mat „...eingöngu fyrir síðustu jól til að létta undir með fjölskyldum sem höfðu orðið fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum og tilheyrandi atvinnuleysi. Var reiknað með mat í 40-50 þúsund máltíðir en í ljósi þess hve þörfin var mikil ákvað KS að halda aðstoðinni áfram eftir síðustu áramót. Stór hluti matvælanna hefur farið til Fjölskylduhjálpar Íslands en einnig til mæðrastyrksnefnda víða um land, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða kross Íslands.
„Við sjáum fram á að geta aðstoðað þúsundir núna í nóvember og desember. Þetta er frábært framlag frá Kaupfélagi Skagfirðinga og gerir gæfumuninn, bara fyrir síðustu jól reiknaðist okkur til að verðmæti máltíðanna sem við úthlutuðum hefði verið um 47 milljónir króna. Síðan héldu gjafirnar áfram til páska og ég hygg að kaupfélagið hafi gefið alls um 100 milljónir króna, bara til okkar,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir hjá Fjölskylduhjálpinni. „Við tökum niður pantanir hjá okkar skjólstæðingum og fáum matvörur í samræmi við það frá kaupfélaginu. Hver fjölskylda fær þrjár eða fjórar máltíðir.“
Reiknað er með að aðstoðin fari fram með svipuðum hætti og verið hefur. Úthlutanir matvælanna frá KS hefjast hjá hjálparstofnunum í byrjun nóvember og munu standa yfir fram að jólum.
Heimild: Morgunblaðið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.