Króksblótið er um helgina

Tími þorrablótanna er genginn í garð eins og alkunna er. Á Sauðárkróki fer Króksblótið fram nú laugardaginn 1. febrúar og að þessu sinni er það 70 árgangurinn sem stendur fyrir blótinu sem fer fram í íþróttahúsinu.
Miðasala er í fullum gangi og er hægt að nálgast miða í Blóma- og gjafabúðinni við Skagfirðingabraut. Bent er á að hægt er borga með korti (posi á staðnum). Miðaverð er kr. 5.500 fyrir blót og ball en þeir sem vilja bara fara á ball borga kr. 5.000. Húsið verður opnað kl. 19:15 en borðhald hefst kl. 20:00.
Gestir hafa matinn meðferðis og ef til vill drykki en hægt verður að kaupa drykki hjá veitingasölu körfuknattleiksdeildar Tindastóls á staðnum. Aldurstakmark á Króksblót er 18 ár.
Það er hljómsveitin Mannamót sem leikur fyrir dansi og þar í fararbroddi er Sigvaldi Gunnars. Hann mun einnig stýra fjöldasöng. Feykir náði í skottið á Sigvalda þar sem hann var að nærast ásamt hljómsveitarfélögum sínum fyrir ball í Aratungu um síðustu helgi og spurði hverjir væru með honum í Mannamótum. „Þetta eru Gunnar Sigfús, sonur Sísu og Bjössa á Varmalæk, og Fróði Snæbjörnsson Blönduósingur og barnfóstra. Svo er með okkur Valgeir Þorsteinsson á trommum en hann er úr Biskupstungunum og hefur gert sig gildandi í ballbransanum hér á Suðurlandi og reyndar um allt land,“ sagði Sigvaldi sem er sonur Gunna á Löngumýri og Laufeyjar..
Þetta eru menn sem kunna á stuðið. Allir á Króksblót!
- - - - -
Fréttin hefur verið uppfærð og verður endurbirt allt að 70 sinnum...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.