Konur í fyrsta sinn til liðs við Rótarýklúbb Sauðárkróks
Allt er breytingum háð segir einhvers staðar. Rótarýklúbbur Sauðárkróks var stofnaður 1948 og félagar koma og fara eins og gengur. Í gær gengu þrír nýir félagar til liðs við klúbbinn. Þessi atburður er svo sem ekki í frásögur færandi nema að því leyti að þetta er í fyrsta sinn í 73 ára sögu Rótarýklúbbs Sauðárkróks sem konur ganga í klúbbinn.
Félagarnir nýju eru Þorkell V. Þorsteinsson, Ragna Hrund Hjartardóttir og Íris Helma Ómarsdóttir. Nokkuð er síðan að Rótarýklúbbum var gert heimilt að fá konur til liðs við sig.
Rótarýfélögum finnst þetta fagnaðarefni því reynslan af blönduðum klúbbum er góð. „Konur bæta og styrkja klúbbana sem þörf er á því starfsemi klúbba og félaga á Íslandi og víðar á undir högg að sækja í þessum brjáluðu þjóðfélagsbreytingum sem við lifum nú,“ segir Ágúst Guðmundsson forseti klúbbsins.
Það er annað að frétta af Rótarýklúbbi Sauðárkróks að árshátíð klúbbsins, sem vera átti 13. nóvember, hefur verið frestað sökum Covid-bylgjunnar. Þá stóð til að bjóða til Jólahlaðborðs í íþróttahúsinu á Króknum 27. nóvember en nýjar samkomutakmarkanir setja þá góðu veislu sennilega í uppnám þó enn hafi engin ákvörðun verið tekin varðandi frestun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.