JólaFeykir mættur ferskur – fjölbreyttur og fínn

Þá er JólaFeykir 2021 kominn úr prenti; samsettur, heftaður og fínn og er drefing á blaðinu þegar hafin. Einhverjir ættu að fá hann inn um póstlúgina í dag og vonandi verður hann kominn á sína áfangastaði að mestu fyrir helgi. Blaðinu er dreift í öll hús á Norðurlandi vestra og svo fá áskrifendur utan svæðisins að sjálfsögðu blaðið sent. Vonandi á JólaFeykir eftir að kæta lesendur og koma fólki í örlítinn jólagír nú í upphafi aðventunnar.

Að venju er fjölbreytt efni í JólaFeyki sem hefur að fengið nýtt nafn (hét áður Jólablaðið) og um leið nýtt lúkk. Forsíðumyndina að þessu sinni tók Helga Sjöfn Helgadóttir en auglýst var eftir myndum á forsíðuna.

Það eru fastir liðir eins og vanalega í blaðinu og að þessu sinni eru það dömurnar í Saumaklúbbnum svakalega sem gefa lesendum innsýn í jólabaksturinn og jólin sín. Lee Ann Maginnis segir gott að búa á Blönduósi, Eduardo Montoya á Frostastöðum langar að opna grillbar með íslensku hráefni að argentínskum sið og Nannar Rögnvaldar kynnir nýja matreiðslubók, Borð fyrir einn, fyrir lesendum. Anna Steinunn Friðriksdóttir rifjar upp jólin og lífið á Höfða á Höfðaströnd og eigendur Harbour restaurant & bar á Skagaströnd segja viðtökurnar hafa verið frábærar. Þá segir Þórður Skúlason Vesturhópið vera paradís en að auki kynnumst við tveimur gæludýrum, rifjaður er upp bruninn í Málmey sem sagt er frá í væntanlegu lokabindi Byggðasögu Skagafjarðar og ýmislegt fleira mætti nefna til sögunnar. Já og jólamyndagátan er á sínum stað.

En sjón er sögu ríkari. Þeir sem ekki geta beðið eftir að fá blaðið í hendurnar geta kíkt á það hér á netinu > smellt hér < eða smellt á myndina af JólaFeyki á forsíðu Feykir.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir