Foreldrafélagið færir leikskólanum Barnabæ góða gjöf
Foreldrafélag Barnabæjar gaf leikskólanum Barnabæ alls 220 segulkubba nú á dögunum. Í frétt á vef Blönduósbæjar segir að um sé að ræða Magna Tiles kubba sem eru mjög vinsælir hjá 3ja ára og eldri en segulkubbarnir eru tilvaldir til að efla sköpunargáfu barnanna, vísindi, tilraunir, stærðfræði og fleira.
Í fréttinni segir að skólinn hafi átt Magna Tiles kubba sem hafa verið það vinsælir að þeir eru alltaf í notkun og geta færri notað þá en vilja en nú horfir til betri vegar og ætti meira en ein deild innan skólans að geta notað kubbana samtímis. „Foreldrafélag Barnabæjar hefur í gegnum tíðina styrkt leikskólann Barnabæ í kaupum á góðum og vönduðum leikföngum sem hafa komið sér vel fyrir starfsemi skólans.“
Fram kemur að ásamt því að styrkja leikskólann með gjöfum þá sér foreldrafélagið um að skipuleggja litlu jólin, gefur börnunum jólagjafir og sér um sumarskemmtun leikskólans og gefur einnig útskriftargjöf til elsta hóps. „Það er ómetanlegt fyrir skólann að hafa foreldrafélag sem styrkir og stendur þétt við bakið á skólanum,“ segir að lokum í fréttinni um leið og Barnabær þakkar foreldrafélagi Barnabæjar innilega fyrir góða gjöf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.