Áhöfnin bíður eftir niðurstöðum úr skimunum vegna Covid-19
Í gær var Málmey SK 1, einum togara Fisk Seafood, siglt í heimahöfn á Sauðárkróki eftir að upp kom grunur um að einhverjir 15 skipverja væru smitaðir af Covid-19. Var áhöfnin í heild sinni tekin í hrappróf og reyndust fjórir úr áhöfn jákvæðir. Mbl.is hafði eftir Ólafi Bjarna Haraldssyni, stýrimanni, að enginn skipverja væri mikið veikur og flestum liði ágætlega. Málmey er komin til hafnar og áhöfnin búin að fara í skimun og bíður nú eftir niðurstöðum úr þeim en reiknað er með að niðurstöður liggi fyrir í kvöld.
Ólafur segir að þeir bíði nú bara rólegir eftir niðurstöðunum um borð. „Við búum okkur undir það versta, en vonum auðvitað það besta,“ sagði Ólafur en sem fengu jákvæða niðurstöðu úr hraðprófum eru bara inni í sínum klefum og þeim færður matur þangað.
Helsta vandann segir Ólafur vera að töluvert mikið þarf að þrífa og sótthreinsa enda hafi skipverjar verið í samneyti við þá sem grunur er um að séu smitaðir undanfarna tvo daga.
Málmey fór á sjó sl. miðvikudag eftir að hafa landað 197 tonnum af þorski og ufsa fyrr í vikunni og var stefnan sú að snúa ekki aftur til lands fyrr en að viku liðinni. Úthaldið varð þó heldur styttra en ætlað var.
Feykir sendir góðar kveðjur á skipverja eins og væntanlega aðrir landsmenn.
Heimild: Mbl.is/200 mílur og heimasíða Fisk Seafood
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.