Viljayfirlýsing um stækkun verknámshúss FNV undirrituð
Í gær skrifuðu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ingileif oddsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, undir viljayfirlýsingu um stækkun verknámshúss skólans. Þar með er langþráðum áfanga náð í þeirri vegferð að koma húsnæði iðngreina í viðunandi horf.
Ingileif bauð gesti velkomna og impraði á því við ráðherra að biðin væri orðin nokkuð löng þar sem fljótlega hafi orðið ljóst eftir að húsnæði viðbyggingar, sem tekin var í notkun árið 2011, væri of lítið. Sagði hún að síðan þá hafi verið reynt að lokka ráðherra á staðinn til þess að þoka stækkun skólans áleiðis.
Eldsmiðirnir Björn Magnús Jónsson, Haraldur Holti Líndal,Björgvin Steinþórsson
og Heiðar Birkir Helgason ásamt Ásmundi Einari.
Ásmundur Einar sagði það vilja ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á verk- og iðnnám í landinu og lýsti ánægju sinni með þann aukna áhuga ungs fólks á þeim greinum. Nefndi hann þá að til þess að koma til móts við þann áhuga þyrfti að fylgja því eftir í húsakosti.
Lagði ráðherra á að áherslu að þrátt fyrir að ráðist yrði í stóra byggingu á nýjum tækniskóla í Hafnarfirði á þessu kjörtímabili yrðu skólar á landsbyggðinni ekki skyldir útundan.
„Það sem við erum að gera núna er að koma krafti í þau verkefni sem eru allt í kringum landið og þar á meðal hér á Sauðárkróki. Þetta er auðvitað bara áfangi og ég reikna með að aftur þurfi ég að nota þennan penna þegar við erum búin að ljúka þessu ferðalagi vegna þess að þetta er ekki endaáfanginn í ferðalaginu. Það er búið að vinna ákveðna frumathugun á húsnæðisþörfinni hérna og við erum að fara að setja fjármagn, og aukinn kraft, í að ljúka þeirri vinnu og fullmóta það sem er þá næsti fasi að því að hægt sé að hefja framkvæmdirnar sjálfar og koma þessu á næsta skref. Og ykkur að segja þá er ekkert annað sem vakir fyrir mér en að koma því sem lengst á þessu þremur og hálfa ári sem ég á eftir í þessu ráðuneyti. Allt var þetta hluti af vinnu sem forveri minn í ráðuneytinu lagði áherslu á, sem var aukið aðgengi og auknir hvatar til þess að ungt fólk færi í verk og tækninám,“ sagði Ásmundur Einar sem hlakkar til að fylgja þessu verkefni eftir.
Ráðherra sýndur þröngur húsakostur rafiðnadeildar.
Hér ræðir hann við Garðar Pál Jónsson, deildarstjóra
rafvirkjunar og bíltæknigreina og Rúnu Birnu Finnsdóttur,
kennara rafiðngreina, sem sér í kollinn á.
Eftir undirskrift var farið um verknámshúsið og tæki og tól skoðuð ásamt því að nemar í eldsmíði voru heimsóttir í sitt litla rými. Þar var ráðherra gefinn heimasmíðaður hringur í anda víkinga sem hann með ánægju veitti viðtöku. Þá var farið í rafiðnadeildina en hún hefur lengi búið við þröngan kost og hver krókur og kimi verknámshússins nýttur undir kennslu. Fór ekki framhjá neinum að þar er þorfin mikil á stkkun athafnarýmis.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá athöfninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.