Vel lukkuð Fljótahátíð í bongóblíðu
Fljótahátíð var haldin í ár í annað sinn en hún var fyrst haldin fyrir tveimur árum með viku fyrirvara eftir að flestar útihátíðum landsmanna höfðu verið blásnar af vegna Covid-19 – já, það er ekki lengra síðan! Þá tók Stefanía Gunnarsdóttir sig til, eða Steffý eins og hún er vanalega kölluð, og hóaði í sitt helsta stemningsfólk og blés til lítillar útihátíðar á sínum æskuslóðum.
„Hátíðin tókst vonum framar og það eyðilagði að sjálfsögðu ekki fyrir að það er alltaf bongóblíða í Fljótunum,“ segir Steffý en hún er dóttir Beggu og Gunnars í Stórholti í Fljótum, býr í Reykjavík og starfar sem markaðsstjóri hjá Aur appinu. Hún sér ein um skipulag Fljótahátíðarinnar, sem haldin er á Ketilási, en segist að sjálfsögðu fá mikla og góða aðstoð frá vinum og fjölskyldu.
„Í ár ákvað ég að taka þetta skrefinu lengra og bæta við dagskrána. Við fengum tæplega 200 manns yfir helgina og dásamlegt veður allan tímann. VIð byrjuðum á Musik-Bingó á föstudaginn, svo var það sápubolti og dansleikur með Danssveit Dósa á laugardaginn og að sjálfsögðu enduðum við þetta með brennu og brekkusöng á sunnudagskvöldið undir stjórn Sæþórs Hinrikssonar,“ segir Steffý og bætir við: „Algjörlega frábær helgi yfirstaðin og aldrei að vita nema maður endurtaki leikinn að ári.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.