Vatnamýs gera vart við sig í Skagafirði
Margt skemmtilegt er hægt að finna í náttúrunni og sitthvað sem leynist við fætur manns án þess að gaumur sé að því gefinn. Á dögunum fóru systkinin Viktoría Ýr, Elísabet Rán og Jón Konráð Oddgeirsbörn í Keflavík í Hegranesi með afa sínum, Jóhanni Má Jóhannssyni, í fjöruferð á Garðssandinn og veittu athygli litlum hnoðrum, innan um rekinn þaragróður.
Voru þar á ferðinni svokallaðar vatnamýs sem eru fremur sjaldgæf fyrirbæri á Íslandi en þær myndast þegar mosi veltist í ferskvatni vegna ölduhreyfinga í stöðuvötnum eða vegna strauma í straumvötnum. Afinn þekkti fyrirbærið enda ein vegleg vatnamús til á bænum en sú er reyndar ættuð að austan.
Krakkarnir sögðust hafa verið á gangi í fjörunni, í svokölluðum Garðskrók, að taka myndir af fallega sólsetrinu sem þá var og innan um þaragróður í fjörunni tóku þeir eftir kúlulaga hnoðrum sem afinn þekkti og fræddi þau um. Ekki hafa þau fundið slíkar mýs áður í fjörunni en þangað er oft farið og teknar myndir, farið í reiðtúra og fleira en ýmislegt annað rekur á fjörur sem gaman er að skoða.
„Það er svo sjaldgæft að þetta finnist enda margt sem þarf að raðast saman í náttúrunni til að þetta myndist eða verði til,“ segir Þórey Jónsdóttir, amma krakkanna, en eina vatnamús átti hún heima sem hún fékk að gjöf frá vini sínum en sú mús er ættuð úr Vopnafirði.
Vatnamúsanna hefur oftast orðið vart í Þistilfirði og má finna grein á vef Náttúrustofu Norðausturlands þar sem greint er einmitt frá fundi vatnamúsa í Þistilfirði sumarið 2016 og þykir sérstakt enda ekki á hverjum degi sem slíkt finnst á víðavangi. Sama ár skrifuðu þau Ævar Petersen, Lars Hedenäs, Kristín Jónsdóttir, Róbert A. Stefánsson og Skarphéðinn G. Þórisson ítarlega grein um þetta fyrirbrigði og birtu í Náttúrufræðingnum, tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags. Þar segir m.a. að mýsnar myndist þegar mosi veltist í vatni vegna öldugangs eða straumkasts og verður oftast kúlulaga að lokum og geti orðið allt frá 20 mm upp í 195 mm að þvermáli eða lengd. Vatnamýsnar finnast yfirleitt við vatns- eða árbakka en í sumum tilfellum hafa þær þó fundist í sjávarfjörum og hafa þá borist til sjávar með straumvötnum.
Feykir hafði samband við Ævar og spurði af hverju þetta væri svo fátítt að finna þetta náttúrufyrirbrigði.
„Ja, það er nú það. Ég held að hluta til sé það að við höfum ekki veitt þessu mikla athygli þannig að þetta sé algengara en maður heldur. En svo er það líka að svona vöndlar virðast myndast eingöngu við ákveðnar aðstæður, fyrst og fremst þar sem eru iður í ám og virðist vera sérstaklega þar sem árnar mynda breiður, áður en þær renna svo út í sjó. Á þessum breiðum eru hringstraumar og tægjur af gróðri, sérstaklega mosa sem lenda í vatninu, að veltast smám saman upp og myndar þessa vöndla sem ég kaus að kalla vatnamýs. Það var ekkert íslenskt nafn yfir þetta þegar ég fór að velta þessu fyrir mér.
Orðið vatnamús er komið vegna þess að það eru til jöklamýs sem eru svona mosavöndlar sem myndast á skriðjöklum. Þá er það jökullinn sem tekur gróðurinn niður á hliðunum þar sem hann skríður. Það er öðruvísi að því leyti að það er lifandi gróður sem myndast á litlar steinvölur en hinsvegar eru vatnamýs dauður gróður sem lendir í vatni og getur verið bæði í ám og vötnum og hefur fundist hingað og þangað. Upphaflega fann ég þetta í lítilli tjörn í Bitrufirði á Ströndum fyrir æði löngu síðan, mig minnir árið 1969 og síðan þá hefur svona fundist á 20-30 stöðum.“
Ævar segir að síðan greinin var skrifuð hafi hann fengið vitneskju um tíu staði í viðbót, þ.á.m. úr Skagafirði og nú frá Garðskrók og Borgarsandi, og sjálfur fann hann vatnamýs í Þingvallavatni í sumar.
„Þegar ég var að velta fyrir mér þessari grein, sem birtist í Náttúrufræðingnum á sínum tíma, spurði ég hina og þessa vatnalíffræðinga hvort þeir hefðu séð svona, en fékk alls staðar nei. Svo fór ég að heyra af þessu frá fleirum og m.a. frá þeim sem eru á Náttúrustofu Austurlands en þá höfðu þeir fundið svona upp á heiðum, talsvert mikið, en algengast er þetta, alla vega sem hefur fundist hingað til, í Þistilfirði, það er í ánum sem renna í Þistilfjörðinn Ormarsá sem er rétt fyrir sunnan Raufarhöfn, Hafralónsá sem er austast í Þistilfirði, rétt fyrir sunna Þórshöfn, og reyndar fleiri ám. Sumir af þessum stöðum hafa ekkert verið skoðaðir í þessu tilliti.“
Þrátt fyrir að hafa verið í sveit sem strákur í Keldudal í Hegranesi, og oft að sulla í vötnum, segist Ævar ekki hafa heyrt um þetta fyrirbæri í Skagafirði fyrr en fyrir fáum árum er hann fékk ábendingu um vatnamýs sem fundust í Hörtnárvatni á Skaga. Þá má benda á frétt sem birtist í Feyki árið 2017 er Ingólfur Sveinsson fann eina slíka mús á Borgarsandinum og frá því mýsnar fundust nú á dögunum á Garðssandinum rölti undirritaður um Borgarsandinn og fann nokkrar mýs, við Ernuna, út frá flugvellinum og austur við ós.
Þar sem fjaran við Sauðárkrók er mikið gengin er ástæða til að benda fólki á að hafa augun hjá sér og velta fyrir sér litlu gróðurhnoðrunum ef þeir verða á annað borð á vegi þess.
Ef svo vel vill til að þeir finnist víðar eru Ævar, og sjálfsagt náttúrustofur hvers landshluta, vís til að hafa áhuga á að vita meira.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.