Vallarsvæðið á Króknum á floti eftir leysingar | Leiknum frestað
Eftir kuldatíð til langs tíma, þar sem hitamælar með plús tölum virtust flestir úreltir, þá skall á með tíu stiga hita og sunnanvindi í dag. Veðurstofan hafði í vikunni birt gula viðvörun fyrir Norðurland þar sem varað var við leysingum. Sú spá gekk eftir og breyttist snjórinn í vatnsflaum. Feykir kíkti í sveitina til að kanna aðstæður en þá brá svo við að snjórinn í Grænuklaufinni á Króknum rann allur út á íþróttasvæðið og útlit fyrir nokkuð tjón.
Áfram verður hlýtt í kvöld og í nótt og með kvöldinu fer að rigna þannig að hætt er við að enn bætist í vatnsrennslið. Á morgun er síðan spáð glampandi sól og ekki bætir það væntanlega úr skák.
Á Facebook-síðunni Skín við sólu smellti Ómar Bragi inn myndum nú síðdegis frá vallarsvæðinu á Sauðárkróki. Þar má sjá hvernig vatnið hefur streymt úr Grænuklaufinni út á gervigrasvöllinn og einnig niður á aðalvöllinn gamla þar sem hlaupabrautin er undir vatni. Göngustígar af efra svæðinu niður á það neðra líkjast frekar árfarvegi en stígum eins og sjá má á myndunum.
Fyrsti fótboltaleikur sumarsins í Bestu deild kvenna á að fara fram á morgun og Feykir spurði Donna þjálfara, sem sjálfur stóð í ströngu ásamt vallarstarfsmönnum í baráttunni við að reyna að hafa hemil á nátturuöflunum, hvort völlurinn yrði leikhæfur á morgun. „Hann er á floti að hluta til því miður og það er lækur niður klaufina eins og er. Ég stórefa að hann verði leikhæfur á morgun en vonum það,“ sagði Donni.
Í austanverðum Skagafirði var víða að safnast vatn meðfram vegum og yfir tún og ekki ólíklegt að bæti í frekar en hitt. Vegagerðin var nú seinni partinn farin að skoða ræsi þar sem vatn var farið að flæða upp á vegi. Það er því um að gera fyrir vegfarendur og bændur að hafa varann á sér.
UPPFÆRT kl. 20:20: Leik morgundagsins á milli Tindastóls og FH hefur nú verið frestað vegna vallaraðstæðna. Ekki hefur verið ákveðið hvenær leikurinn fer fram.
- - - - -
Myndirnar af vallarsvæðinu tók Ómar Bragi. Hægt er að skoða myndskeið af aðstæðum á Skín við sólu.
Aðrar myndir tók Óli Arnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.