Það dró í tröllaskafla
Það voru einhverjir sem héldu sennilega að vorið væri komið eftir veðurblíðu framan af mars. En það snérist örlítið í veðurguðunum í gær og skall á með hvassviðri og stórhríð víða um land. Ekki fór Norðvesturlandið varhluta af veðurofsanum og þegar íbúar rifuðu augun í morgunsárið og gáðu til veðurs þá mátti sjá að víða hafði dregið í tröllaskafla. Í þéttbýli var víðast hvar ófært framan af degi.
Veður skánaði um hádegi en þó er víða gert ráð fyrir snarpri norðanátt á morgun en Veðurstofan gerir ráð fyrir að komið verði skaplegt veður á Norðurlandi vestra á laugardag.
Ómar Bragi Stefánsson birti í dag nokkrar myndir frá Króknum á síðunni Skín við sólu og gaf hann Feyki góðfúslegt leyfi til að birta þær. Eins og sjá má á myndunum voru skaflarnir víða meiriháttar og óvenju miklir. Þar sem snjóinn náði ekki að festa var hins vegar auð jörð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.