Margt brallað í Skagafirði
Sagt er frá því á heimasíðu Svf. Skagafjarðar að ýmsar framkvæmdir hafa verið í gangi í Skagafirði á haustmánuðum. Má þar til dæmis nefna malbikunarframkvæmdir bæði á Króknum og í Varmahlíð, vinnu við sjóvarnir og lengingu sandfangara við Sauðárkrókshöfn og margt fleira. Feykir gerði sér lítið fyrir og fékk lánaðar nokkrar fínar myndir af heimasíðunni.
Í fréttinni segir: „Unnið er m.a. við gerð sjóvarnar og lengingu sandfangara við Sauðárkrókshöfn. Um er að ræða gerð sjóvarnar meðfram Þverárfjallsvegi og Skarðseyri á um 450 metra kafla og lengingu sandfangara um 30 metra. Sjóvörnin verður hækkuð um u.þ.b 1 meter þannig að hæð hennar verði +5,0 m í hæðarkerfi hafnarinnar. Búið er að bjóða út og semja um vinnu við grjótgarð við Hofsóshöfn og er áætlað að vinna hefjist þar með vorinu.
Vinna stendur yfir við að leggja nýja stofnæð hitaveitu meðfram Strandveginum á Sauðárkróki á vegum Skagafjarðarveitna ásamt lögn á rafstreng á vegum Rarik. Dælustöð fyrir nýja hitaveitu í Hegranesinu rís, en hún er staðsett við hesthúsakverfið á Sauðárkróki.
Framkvæmdir við viðbyggingu við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi ganga vel og er húsið farið að taka á sig góða mynd. Húsið mun gefa leikskólanum Barnaborg nýtt heimili.
Malbikunarvinna hefur verið í gangi víða. Mikið hefur verið unnið við hreinsun og malbikun við Sauðárkrókshöfn á síðastliðnum vikum og er malbikunarvinnu þar nú lokið. Í Varmahlíð var malbikað á Skólavegi og Birkimel og bílastæðið við sundlaugina og íþróttahúsið hefur verið malbikað. Þá hafa gangstéttir verið steyptar við nýjustu göturnar á Sauðárkróki og gengið frá þökulagningu.
Aðgengi við Hús frítímans hefur verið bætt sem mun auðvelda hjólastólaaðgengi til muna, en mjög margir nýta sér aðstöðu Húss frítímans í viku hverri.
Ný og glæsileg sorpmóttaka verður opnuð í Varmahlíð á næstunni og stendur nú yfir kosning á nafni sorpmóttökunnar á heimasíðu sveitarfélagsins.“
Myndirnar hér að neðan eru af heimasíðu Svf. Skagafjarðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.