Kvennahlaup í þrítugasta sinn

Það var myndarlegur hópur sem tók þátt í hlaupinu í dag. Myndir: FE
Það var myndarlegur hópur sem tók þátt í hlaupinu í dag. Myndir: FE

Sjóvá Kvenna­hlaup ÍSÍ fer fram á morgun, laugardaginn 15. júní. Þetta er í þrítugasta skipti sem hlaupið er haldið og verður nú hlaupið á yfir 80 stöðum á land­inu. Á vefsíðu ÍSÍ segir að markmið Kvennahlaupsins hafi frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu þar sem allir taka þátt á sínum forsendum og áhersla lögð á að hver komi í mark á sínum hraða. Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið til hvetja konur til hreyfingar eins og nafn þess gefur til kynna þá hafi karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið.

Samkvæmt upplýsingum Feykis verður hlaupið á fimm stöðum á Norðurlandi vestra á morgun. Farið verður frá sundlaugunum í Varmahlíð og á Hofsósi klukkan 10:30 og lagt verður í hann frá Hólaskóla á sama tíma. Á Blönduósi verður farið frá Íþróttamiðstöðinni klukkan 11:00 og á sama tíma verður lagt af stað frá Sundlaug Sauðárkróks. Á Borðeyri verður farið frá Tangahúsinu klukkan 13:00.

Þess má geta að í Fljótum verður hlaupið nk. föstudag, 21. júní klukkan 10:30 frá Sundlauginni á Sólgörðum.

Í Húnaþingi vestra var hins vegar tekið forskot á hlaupið á miðvikudaginn. Það var líka gert í dag á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki þegar heimilismenn þar, ásamt notendum Dagdvalar aldraðra, skelltu sér út í góða veðrið og tóku þátt í hlaupinu, hver með sínu lagi, ásamt starfsfólki. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi hópur tekur þátt í hlaupinu en að sögn Herdísar Klausen, yfirhjúkrunarfræðings, var ákveðið að vera með að þessu sinni í tilefni afmælisins. Allar konurnar fengu Kvennahlaupsboli en karlarnir, sem að sjálfsögðu fengu að vera með, fengu buff. Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tækifæri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir