Ísólfur Líndal Þórisson varði titilinn frá því í fyrra

Lokakvöld KS-Deildarinnar fór fram í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í fyrrakvöld. Það var vel mætt af áhorfendum og myndaðist stemning á pöllunum. Keppt var í tveimur greinum, slaktaumatölti og skeiði. Mikið af góðum hrossum voru skráð til leiks og ljóst að það stefndi allt í spennandi og skemmtilegt lokakvöld.

Fyrir kvöldið var einstaklingskeppnin mjög spennandi þar sem allnokkrir knapar áttu raunhæfan möguleika á sigri og munaði aðeins einu stigi á efstu knöpum og því allt opið.

Kvöldið byrjaði á forkeppni í slaktaumatölti, það var Þórarinn Eymundsson sem stóð efstur eftir hana með hest sinn Takt frá Varmalæk , uppskáru 7,43. Staðan eftir forkeppnina var hins vegar jöfn og ljóst að allt gat gerst í úrslitum.

Efstur inní B-úrslit var Arnar Bjarki, þar á eftir komu Elvar, Baldvin, Líney og Mette. Eftir frjálsu ferðina leiddi Arnar Bjarki nokkuð örugglega með hestinn Kamban frá Húsavík, en þeir fengu 8,0 fyrir það atriði. Kamban er tvöfaldur landsmótssigurvegari en það er systir Arnars Bjarka hún Glódís Rún sem er aðal knapi þessa hest og jafnframt eigandi.

Mette Mannseth og Stjörnustæll frá Dalvík tók forustuna eftir hæga töltið en þau uppskáru 7,5 fyrir það. Þetta par hefur verið að gera góða hluti í slaktaumatölti og voru meðal annars í A-úrslitum á íslandsmótinu síðasta sumar. Eins og áður segir leiddi Mette fyrir slakatauminn en mjög mjótt var á munum og allt opið.

Það var Elvar Einarsson og Simbi frá Ketilsstöðum sem komu best útúr slakataumnum með einkunnina 8,0 og fór það svo að þeir enduðu með einkunnina 7,5 og tryggðu sér þar með sæti í A-Úrslitum.

Elvar fékk Simba að láni, en eigandi hans er Berglind Rós Bergsdóttir. Simbi hefur verið að keppa sunnan heiða. Til að mynda tók hann þátt í slaktaumatöltinu í Meistaradeild Vís fyrir viku síðan undir stjórn Olil Amble og var þar einnig í A-úrslitum.

Efstur inní A-úrslit kom Þórarinn Eymundsson, þar á eftir komu Tryggvi, Bjarni, Ísólfur og Elvar.

Eftir frjálsu ferðina voru þeir efstir og jafnir Þórarinn og Taktur & Bjarni og Roði með 8,3. Ólíkir en glæsilegir hestar báðir. Þórarinn og Taktur uppskáru hæstu einkunn fyrir hæga töltið eða 8,5 og leiddu þeir því fyrir slakatauminn. Það voru Elvar og Simbi sem komu best útúr slakataumnum með 8,1.

Mikil spenna myndaðist og erfitt var að ráða til um úrslit. Þau fóru svo að sigurvegarar B-úrslita Elvar og Simbi sigruðu með 7,83. Simbi er frábær töltari, fór jafnt í gegnum öll atriðin, mjúkur, hágengur, sjálfberandi og glæsilegur á slakataumnum.

Í öðru sæti urðu Ísólfur og Vaðall með einkunnina 7,75. Vaðall er mjög efnilegur í þessari grein og eigum við örugglega eftir að sjá hann aftur við slakan taum. Það var Topreiter/S-Skörðugil sem varð stigahæsta liðið í slaktaumatöltinu.

Það voru margir fljótir hestar skráðir í skeiðið og ljóst að spennan þar yrði ekki síðri. Frábærir tímar náðust og voru þrír hestar undir 5sek.-Segull, Hrappur og Korði. Það verður að teljast nokkuð gott í byrjun apríl.

Skeiðið fór svo að sigurvegari slaktaumatöltsins Elvar Einarsson sigraði með hest sinn Segul frá Halldórsstöðum, tíminn 4,90, Bjarni Jónasson og Hrappur frá Sauðárkróki urðu númer tvö með tímann 4,95 og þriðju urðu Ísólfur Líndal og Korði frá Kanastöðum með tímann 4,98.

Félag Tamningamanna veitti FT-Fjöðrina í skeiðinu en það var Sölvi Sigurðarson sem hlaut hana og var hann vel að þessari viðurkenningu kominn með góðri reiðmennsku.

Það var lið Draupnis/Þúfur sem varð stigahæsta liðið í skeiðinu.

Eftir mikla spennu í einstaklingskeppninni í vetur fór hún svo að Ísólfur Líndal sigraði KS-Deildina með 90 stig. Ísólfur er búinn að standa sig mjög vel með frábæra hesta og verið í efstu sætum öll mótin. Ísólfur varði þar með sinn titil, en hann sigraði deildina í fyrra.

Lið Hrímnis sigraði liðakeppnina með 199,5 stig. Hrímnisliðið stóð sig mjög vel í vetur og voru liðsmenn þess nánast alltaf í úrslitum.

Haldinn var fundur fyrr um daginn með knöpum deildarinnar og kom þar fram að allir aðilar eru ánægðir með veturinn og mjög áhugasamir að halda áfram á þessari braut og jafnvel að bæta inn nýjum greinum.

Meistaradeild Norðurlands þakkar fyrir skemmtilegan vetur.

// Svala Guðmundsdóttir

Einstaklingskeppni:

1.Ísólfur Líndal                 90
2.Bjarni Jónasson              88
3.Þórarinn Eymundsson    85
4.Elvar Einarsson              77,5
5.Mette Mannseth             77
6.Líney María                    65
7.Arnar Bjarki                   51,5
8.Hörður Óli                     49,5
9.Tryggvi Björnsson          48
10.Baldvin Ari                   47,5
11.Gísli Gíslason               45
12.Vigdís Gunnarsdóttir    39,5
13.Sigvaldi Lárus               39
14.Sölvi Sigurðarson          37
15.Jóhann Magnússon       37
16.Viðar Bragason             30
17.Þorbjörn Matthíasson    24
18.Hlín Mainka                  19,5

Staðan í liðakeppninni:

Hrímnir                         199,5
Draupnir/Þúfur              173,5
laekjamot.is                  155,5
Weierholz                       164
Topreiter/S-Skörðugil    173
Björg/Fákasport            73,5

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir