Hjalti Pálsson útnefndur heiðursborgari Svf. Skagafjarðar á útgáfuhátíð Byggðasögunnar
Í gærkvöldi náðist loks að halda útgáfuhátíð Byggðasögu Skagafjarðar en tíunda og jafnframt seinasta bindi ritraðarinnar kom út skömmu fyrir síðustu jól en tafir urðu á athöfn vegna Covid. Í lok dagskrár var Hjalti Pálsson, ritstjóri verksins, útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Það var vel mætt í Höfðaborg á Hofsósi, þar sem Sögufélag Skagfirðinga hafði stefnt fólki til að fagna þeim mikla áfanga sem lauk með lokaútgáfu Byggðasögunnar sem að þessu sinni fjallaði um Hofsós, Grafarós, Haganesvík og eyjarnar Drangey og Málmey.
Frá því útgáfa hófst árið 1999 til þessa síðasta bindis leið hartnær aldarfjórðungur. Verkið er viðamikið og ítarlegt en gefin er lýsing á hverri einstakri bújörð, getið bygginga og birt tafla yfir fólk og áhöfn á tímabilinu 1703 til útgáfuárs hverrar bókar. Verkið deilist niður eftir hinum gömlu sveitarfélögum Skagafjarðar, eftir atvikum eitt til tvö sveitarfélög í hverju bindi.
Ritið þykir ákaflega hagnýtt og sagði Bjarni Maronsson, formaður útgáfustjórnar, það hafa sannað sig sem slíkt og æ meira notað sem uppflettirit fyrir stofnanir ferðaþjónustu og ekki síst á heimilum. „Þegar koma upp vafamál á milli manna er oft gripið til Byggðasögunnar og flett upp í henni og þangað sóttar upplýsingar um ágreiningsmál sem hefðu getað valdið vinslitum eða alvarlegum hjónabandsörðuleikum,“ sagði hann við upphaf dagskrár í gærkvöldi. Fram kom í máli hans að aðalhvatamenn að ritun Byggðasögunnar hafi verið framsýnir félagsmála- og sveitarstjórnarskörungar, Jón Guðmundsson á Óslandi og Þorsteinn Ásgrímsson, á Varmalandi, og hefði Byggðasagan tæpast orðið að veruleika ef atorka þeirra hefði ekki komið til greina og framsýni.
Það var árið 1994 í Héraðsráði Skagfirðinga sem fyrst var hreyft við þeirri hugmynd að hefja ritun Byggðasögu Skagafjarðar sem einskonar framhaldsritun hins gamla Jarða- og búendatals. En hinn 9. janúar árið 1995 var gengið frá stofnsamningi um ritun hennar milli Héraðsnefndar Skagfirðinga, Kaupfélags Skagfirðinga, Búnaðarsambands Skagfirðinga og Sögufélags Skagfirðinga. Síðar tóku sveitarfélögin við hlutverki Héraðsnefndar. Skipuð var þriggja manna útgáfustjórn og Hjalti Pálsson ráðinn ritstjóri verksins en hann tók til starfa 1. október sama ár.
Leikfélags Hofsóss var með upplestur úr völdum köflum Byggðasögunnar og ungmenni sýndu leikþátt um Jón bónda sem leitar ásjár hjá Hálfdáni presti á Felli eftir að konan hans hverfur eftir 20 ára búsetu í Málmey en eins og allir vita má enginn vera þar lengur en tuttugu ár án illra afleiðinga.
Hjalti leit yfir farinn veg sagði frá aðkomu sinni að verkinu og Kári Gunnarsson, samstarfsmaður hans, sté einnig í pontu og greindi frá sinni hlið verkefnisins.
Ávörp fluttu Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri og Stefán Vagn Stefánsson, forseti sveitarstjórnar, en hann las upp bókun sveitarstjórnar frá 6. apríl sem ekki hafði verið birt áður, þar sem kom fram að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi ákveðið að útnefna Hjalta Pálsson sem heiðursborgara sveitarfélagsins.
Í bókuninni segir:
„Hjalti var bókavörður á Héraðsbókasafni Skagfirðinga 1976-1990 en tók þá við starfi héraðsskjalavarðar Héraðsskjalasafns Skagfirðinga til ársins 2000. Hjalti var ráðinn ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar árið 1995. Hjalti var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir framlag til héraðssögu, fræða og menningar. Var það verðskulduð viðurkenning því fáir hafa lagt jafn mikið fram til byggðasöguritunar og -rannsókna en Hjalti Pálsson. Til vitnis um það er ritröðin Byggðasaga Skagafjarðar sem er órækur vitnisburður um viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í byggðasöguritun sem farið hefur fram á Íslandi. Við ritun byggðasögunnar hefur ritstjóri heimsótt hverja einustu jörð í Skagafirði og aflað viðamikilla og ómetanlegra gagna og upplýsinga. Þess má geta að Byggðasaga Skagafjarðar var tilnefnd til verðlauna Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem besta fræðiritið árið 2007. Í umsögn dómnefndar kom fram að í Byggðasögu Skagafjarðar fléttist saman í nútíð og fortíð land og saga, alþýðufróðleikur og vönduð sagnfræði í yfirgripsmikilli byggðasögu. Hjalti hefur einnig um áratuga skeið verið formaður Sögufélags Skagfirðinga en á vegum þessa elsta héraðssögufélags landsins hafa komið út á annað hundrað rit um sögu Skagafjarðar, m.a. Skagfirskar æviskrár, Saga Sauðárkróks, Skagfirðingabók og fleiri rit, auk byggðasögunnar. Hjalti hefur þar sem annars staðar lagt fram gríðarlegt vinnuframlag við ritun, ritstjórn og annað sem tilheyrir útgáfu ritanna og starfsemi Sögufélags Skagfirðinga. Þá hefur Hjalti fært Héraðsskjalasafni Skagfirðinga að gjöf og til varðveislu ýmis gögn og ljósmyndir úr sínum fórum.
Hjalti er annar í sögu sveitarfélagsins til að hljóta nafnbót heiðursborgara en Bjarni Haraldsson var útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrstur manna árið 2019. Jón Þ. Björnsson, Eyþór Stefánsson og Sveinn Guðmundsson höfðu hlotið heiðursborgaranafnbótina í tíð Sauðárkrókskaupstaðar áður.
Með því að sæma Hjalta Pálssyni heiðursborgaratitli vill Sveitarfélagið Skagafjörður þakka Hjalta fyrir hans framlag til héraðssögu, fræða og menningar um áratuga skeið og fyrir að gera Skagfirskt samfélag enn betra.“
Ekki vissi Hjalti að þessi heiður væri að falla honum í skaut og kom honum á óvart. Þakkaði hann vel fyrir sig. „Þetta kemur mér nú verulega á óvart en ég met það mikils þann hug sem að baki þessu stendur og hvernig móttökur ég hef fengið í gjörvöllu héraðinu í öll þessi ár við þetta verkefni, hvatningu og hjálp. Menn hafa séð af tíma sínum til að sinna mér og upplýsa mig sem best þeir geta. Ég get ekki annað en verið annað en mjög þakklátur og sáttur við það og segi kærar þakkir fyrir mig,“ sagði Hjalti sem fagnað var með standandi lófaklappi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.