Góður árangur 9. flokks drengja í Tindastóli
Nú um helgina fór fram á Sauðárkróki körfubolta-turnering í B-riðli hjá 9. flokki drengja. Fimm lið tóku þátt en það voru lið Breiðabliks, Njarðvíkur, Skallagríms, Tindastóls og Vals. Lið Tindastóls hafði nýverið unnið sig upp um riðil og er óhætt að segja að drengirnir hafi komið skemmtilega á óvart og náðu skínandi árangri, enduðu í öðru sæti riðilsins.
Leiknar voru fjórar umferðir á mótinu, öll liðin mættust í innbyrðisviðureignum, og hófu Tindastólsstrákarnir leik í hádeginu á laugardag á móti Val. Hlíðarendastrákarnir voru besta liðið á mótinu og sigruðu Tindastól 56-46. Næst mættu strákarnir sprækum Skallagrímsmönnum úr Borgarnesi sem hafa setið sem fastast í B-riðli undanfarin ár. Þrátt fyrir þunnskipaðan hóp voru Stólarnir hvergi bangnir og með Jón Gísla Eyland Gíslason í miklu stuði skelltu þeir Sköllunum 53-41.
Á sunnudegi hófu strákarnir leik kl. 9 að morgni og sigruðu Breiðablik 43-29. Með sigri gegn Njarðvíkingum var ljóst að strákarnir næðu að tryggja sér annað sætið í B-riðli. Þeir nafnar Darrel Lewis og Flake stjórnuðu liðinu af bekknum af mikilli röggsemi og greinilegt að varnarleikurinn var grunnur að árangri liðsins en strákarnir börðust eins og ljón og sýndu fína takta á mótinu. Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem Njarðvíkingar héngu í Stólunum, stungu strákarnir gestina af í síðari hálfleik og unnu 61-39.
Valsmenn unnu alla sína leiki og fara upp um riðil. Njarðvíkingar urðu að bíta í það súra epli að falla niður í C-riðil eftir að hafa hafið veturinn í A-riðli en þeir munu hafa misst sína bestu menn. Tindastóll hafnaði sem fyrr segir í öðru sæti, Blikar náðu þriðja sætinu eftir að hafa lagt Skallagrím í lokaumferðinni í hnífjöfnum leik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.