Frá útgáfuhátíð vegna útkomu 36. bindis Skagfirðingabókar
Laugardaginn 7. nóvember stóð Sögufélag Skagfirðinga fyrir útgáfuhátíð og kynningu í tilefni af útkomu nýrrar Skagfirðingabókar fyrir árið 2015 en bókin er sú 36. í röðinni. Kynningin fór fram á Kaffi Króki á Sauðárkróki og var ágæt mæting. Hjalti Pálsson frá Hofi, formaður félagsins, kynnti innihald bókarinnar en síðan fluttu feðgarnir Brynjar Pálsson og Páll Brynjarsson smá tölu um umfjöllunarefni höfuðkafla bókarinnar, Króksarana frá Jótlandi, apótekarahjónin Minnu og Ole Bang, en þann kafla ritaði Sölvi Sveinsson sem var fjarri góðu gamni að þessu sinni.
Minna og Ole voru tengdaforeldrar Brynjars og þar með amma og afi Páls og rifjaði Páll upp sögu þeirra, þegar Minna kom fyrst í Skagafjörð, danska siði sem komu Króksurum spánskt fyrir sjónir og ýmislegt annað. Páll sagði að Minna og Ole hefðu aldrei orðið Íslendingar, þrátt fyrir að hafa búið hér í áratugi, en þau hefðu verið Danir og Króksarar.
Brynjar rifjaði upp að honum hefði þótt borðhaldið í Apótekinu standa helst til of lengi yfir, ekki hvað síst á jólum, en þá var setið til borðs í um þrjá tíma. Sjálfur fékk hann leyfi til að leggja sig eftir um hálftíma og var því vel hvíldur þegar borðhaldi lauk. Á meðan á kynningunni stóð var myndasyrpu varpað á tjald og kynnti Brynjar það helsta sem fyrir augu bar.
Að sjálfsögðu var tekin kaffipása í miðjum klíðum og boðið upp á sérrí, kaffi, kringlur og kruðerí.
Það er Sögufélag Skagfirðinga sem gefur Skagfirðingabók út. Bókin er 192 bls að stærð og prýdd miklum fjölda ljósmynda. Efni Skagfirðingabókar er fjölbreytt að vanda því að tíu aðrar greinar eru í bókinni. Þær nefnast: Dulrænar sagnir Sverris Björnssonar frá Viðvík. Frostavetur [1917-1920] eftir Björn í Bæ. Frá Bændanámskeiðinu á Hólum 1925 búið til prentunar af Sölva Sveinssyni. Jón Margeir eftir Hjalta Pálsson. Af Goðdalaprestum eftir Jón R. Hjálmarsson. Skírnarfonturinn í Hóladómkirkju eftir Sigurjón Pál Ísaksson. Víkurskólinn eftir Klemens Guðmundsson. Sumarferðalag til Skagafjarðar 1947 eftir Nönnu Hermannsson. Minningabrot Steinunnar Hjálmarsdóttur og Hrap í Drangey 1952.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.