Allt á kafi í snjó í Fljótum

Það var varla nokkur leið að átta sig á því hvar hinn raunverulegi vegur lá við Ketilás í Fljótum. MYNDIR: ÓAB
Það var varla nokkur leið að átta sig á því hvar hinn raunverulegi vegur lá við Ketilás í Fljótum. MYNDIR: ÓAB

Víðast hvar í Skagafirði var rjómablíða í gær og íbúar á Sauðárkróki hafa lítið fundið fyrir veðurofsa síðustu vikna, enda fer austanáttin alla jafna nokkuð blíðlega með vestanverðan Skagafjörðinn. Snjósöfnun hefur aftur á móti verið töluverð austan megin og þá ekki síst í Fljótum þar sem fannfergið er slíkt að þar mótar varla fyrir landslagi lengur.

Blaðamaður Feykis skaust með myndavélina í Fljótin í gær og smellti af nokkrum myndum á leiðinni. Eftir að hafa ekið undir bláhimni meginhluta leiðarinnar var aftur á móti þungt yfir þegar komið var í Fljótin og himinn og land runnu nánast saman í hvítt mistur þar sem erfitt var að greina kennileiti. Umferðarmerki rétt stóðu upp úr snjónum og bæjarskilti vísuðu óræðar slóðir sem flestar voru djúpt undir snjófarinu. 

Þegar komið var í Ketilás tók við floti vinnuvéla og bifreiða sem skildar höfðu verið eftir – eigendur sennilega verið fluttir á dráttarvélum til og frá Ketilási. Þegar blaðamaður klöngraðist upp á vegarslóða – utan vegar – og horfði inn Fljótin þá sást varla móta fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Enda er það svo að veðri hefur vart slotað svo orð sé á gerandi síðan í desember.

„Aðstæður hérna eru þannig að það er allt landslag horfið. Það eru allir hólar horfnir. Það er bara snjór yfir öllu,“ sagði Ólafur Jónsson á Helgustöðum í samtali við Rúv.is í gær. Til marks um það sýnir snjómælir við Skeiðsfoss 225 sentímetra jafnfallinn snjó á láglendi. Snjórinn safnast svo saman þar sem skefur, er haft eftir Ólafi.

Í frétt Rúv segir: Þrátt fyrir að menn reyni að ryðja snjó frá og ofan af eigum sínum bætir alltaf í þegar snjóar og skefur. „Núna er metri niður á rúllustæðuna hjá mér sem er í þremur hæðum. Það er sennilega í kringum fimm metra snjódýptin í kringum rúllustæðu,“ segir Ólafur.

Jón Elvar Númason á Þrasastöðum lýsir sambærilegum aðstæðum. Hann er á innsta bæ í dalnum. „Þetta er allt á svartakafi í kringum útihús og svona. Það er komið hjá mér í kringum sjötta meter í kringum húsin hjá mér.“ Þó er Jón með snjómokara sem bjargar miklu.

Svo mikið safnast að stórum hlutum og litlum að jafnvel blindhæðarmerki eru komin á kaf. Biðin eftir færum vegum er orðin löng. „Síðast var mokað til okkar 13. febrúar og það er búið að vera ófært síðan,“ segir Jón. „Maður hefur fengið bara einn og einn dag sem eru stillur og gott veður, en það er aldrei friður. Það er alltaf skafrenningur og ofankoma. Hann nær alltaf að fylla allt sem maður mokar.“

Ólafur á Helgustöðum setur veðrið í samhengi við annað sem gerist í samfélaginu. „Það má eiginlega segja að við höfum verið í sjálfskipaðri sóttkví síðustu mánuði þannig að það eru ekki miklar líkur á að við lendum í þessari veiru allavega.“ -

Víða er ófært í dag í sunnan hvassviðrinu sem gengur yfir landið. Ófært er á Siglufjörð úr Fljótum og ekki er líklegt að dregið hafi úr snjónum í Fljótum þessa helgina. Þverárfjall er ófært þegar þetta er skrifað og Öxnadalsheiðin er lokuð enn einn daginn. Einhver veðurfræðingurinn hafði spáð því að þessi ótíð tæki enda 20. mars og spáin er svo sem skapleg sem stendur fyrir þann ágæta föstudag. Við sjáum hvað setur.

Myndasyrpan hefst með mynd úr Hegranesi, síðan er haldið yfir í Óslandshlið, myndað á Hofsósi og við Hof og haldið í Fljótin og til baka á ný.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir