Zoran Vrkic áfram með Stólunum
Áfram heldur körfuknattleiksdeild Tindastóls að styrkja hópinn fyrir komandi tímabil því nú hefur verið samið við Zoran Vrkic um að leika áfram með Stólunum næsta vetur. „Zoran er Tindastólsfólki vel kunnur en hann spilaði með liðinu frá síðustu áramótum við góðan orðstír. Við bjóðum Zoran velkominn aftur á Krókinn og hlökkum til að sjá hann í Síkinu á nýjan leik,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu kkd. Tindastóls.
Zoran fór hægt af stað á þeim tíma sem liðið var að finna fæturna og koma sér í gírinn fyrir eftirminnilega úrslitakeppni. Þá var Króatinn kominn í góðan gír en meiddist því miður snemma í úrslitarimmunni gegn Val og gat lítið beitt sér.
Að sögn Dags formanns eru allir klárir í bátana og von á nýjum þjálfara, Vladimir Anzulovic, til landsins í kringum 20. ágúst. Þegar hefur verið samið við þrjá erlenda leikmenn; Zoran og Taiwo sem voru hér í vor og þá bættist meistari Drungilas í hópinn og nú verða stuðningsmenn að bíða og sjá hvort spennandi Kani kemur í stað Bess sem ákvað að leita á önnur mið.
Nú þegar hafa Sigurður Þorsteins, Arnar Björns, Pétur Birgis og bræðurnir Viðar og Ragnar Ágústssynir samið við Stólana og önnur leikmannamál eru í vinnslu samkvæmt upplýsingum Feykis. Það stefnir því allt í að liðið komi kröftugt til leiks í haust.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.