„Virkilega stoltur af strákunum“
„Tilfinningin var ólýsanleg. Langþráður draumur að rætast hjá leikmönnum, þjálfarateymi, meistaraflokksráði og stuðningsmönnum okkar. Við lögðum allt okkar í verkefnið og uppskárum eftir því. Ég er því virkilega stoltur af strákunum,“ segir Ingvi Rafn Ingvarsson, þjálfari og leikmaður Kormáks Hvatar, þegar Feykir spurði hann hvernig tilfinningin hafi verið þegar dómarinn flautaði til leiksloka á Blönduósi á þriðjudag og ljóst var að liðið hafði tryggt sér sæti í 3. deild að ári.
Hvernig hafa leikirnir í úrslitakeppninni verið hingað til? „Þeir hafa fyrst og fremst verið mjög spennandi. Þrátt fyrir að lítið hafi verið skorað þá buðu þeir allir upp á mikla skemmtun þar sem ekkert var gefið eftir, nákvæmlega eins og þetta á að vera í úrslitakeppninni. Við höfum spilað virkilega þéttan varnarleik það sem af er úrslitakeppninni og tel ég það vera stóra ástæðu fyrir velgengni okkar. Þá erum við með hæfileikaríka sóknarmenn í liðinu sem geta klárað leiki upp á sitt einsdæmi, eins og hefur sést í allt sumar.“
Eru allir klárir í slaginn á morgun? „Tveir af okkar spænsku leikmönnum eru farnir til síns heima og þar að auki erum við með tvo í leikbanni. Þrátt fyrir það erum við með stóran og góðan hóp og því tækifæri fyrir aðra leikmenn að stíga upp á laugardaginn.“
Hvernig leggst leikurinn við KH í þig? „Það er mikil tilhlökkun hjá okkur fyrir leiknum. Fyrst og fremst þurfum við njóta þess að spila þennan leik. Við förum fullir sjálfstrausts inn í leikinn og vonandi lyftum við bikarnum fyrir framan stuðningsmenn okkar í leikslok. Ég hef því fulla trú á að við gerum vel á laugardag,“ segir Ingvi Rafn að lokum.
Kormákur Hvöt spilar á morgun, laugardaginn 11. september, við lið KH en þar ræðst hvort liðið verður Íslandsmeistari í 4. deild. Leikurinn fer fram á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Reykjavík og hefst kl. 14:00. Lið KH heitir fullu nafni Knattspyrnufélagið Hlíðarendi, þeir spila í Valslitunum, eru með aðsetur í 105 Reykjavík og það má því segja að þeir séu á heimavelli á morgun. Áfram Kormákur Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.