Víðismenn stálu stigi gegn lánlausum Stólum
Lið Tindastóls og Víðis í Garði mættust í 3. deildinni á Króknum í kvöld í leik sem átti að fara fram sl. föstudag en var frestað vegna hvassviðris. Leikurinn fór fram við fínar aðstæður í kvöld og var lengstum fjörugur. Heimamenn sýndu ágætan leik en voru hálfgerðir kettlingar upp við mark andstæðinganna en svo fór að lokum að liðin skiptu stigunum á milli sín. Lokatölur 2–2 og enn eitt svekkelsið fyrir lánlaust lið Tindastóls staðreynd.
Lið Tindastóls fór vel af stað og skapaði sér fjögur fimm fín tækifæri á fysta stundarfjórðungnum en afgreiðslurnar voru daprar og virtist sem menn væru að vanda sig um of við að hitta markið. Þá fengu Stólarnir heilan haug af hornspyrnum í fyrri hálfleik og það var á sömu bókina lagt þar; það vantaði áræðnina og kraftinn til að komast í boltann. Það var því gegn gangi leiksins sem Víðismenn komust yfir á 25. mínútu en eftir vandræði í vörn Stólanna renndi Ísak John Ævarsson boltanum í fjærhornið hjá Atla Degi í marki Tindastóls og virtist sem Atli hefði hreinlega ekki séð skotið fyrr en um seinann. Tindastólsmenn voru áfram sterkara liðið fram að hléi en leikmenn virtust á köflum pirraðir og voru kannski að reyna fullmikið af löngum úrslitaboltum fram völlinn. Staðan 0-1 í hálfleik.
Stólarnir spiluðu boltanum betur í síðari hálfleik og héldu betur í hann. Jöfnunarmarkið leit dagsins ljós á 62. mínútu þegar Pape skallaði frábæra hornspyrnu Konna í markið. Aðeins fimm mínútum síðar kom Raul Sanjuan Jorda heimamönnum yfir eftir frábær tilþrif. Víðismenn reyndu að færa sig framar á völlinn eftir þetta en þeir voru hreinlega slakir í leiknum og lítið gekk upp hjá þeim, spilið ómarkvisst og þeir sköpuðu lítið. Það var því enn og aftur gegn gangi leiksins sem þeir jöfnuðu metin eftir aukaspyrnu Aliu Djalo á 87. mínútu – ansi slysalegt mark og það var eins og engin tæki ábyrgð í vörninni. Stólarnir reyndu að sækja stigin þrjú á lokamínútunum en án árangurs þrátt fyrir að hafa skapað sér nokkra álitlega möguleika.
Eitt stig í pottinn döpur staðreynd og nú eru Stólarnir í fallsæti með sex stig eftir átta leiki. Liðið spilaði sem fyrr segir ágætlega í kvöld en það er eins og það ríki hálfgert andleysi í liðinu, menn kannski stressaðir og með lítið sjálfstraust eftir erfiða byrjun í deildinni, og kostnaðarsöm mistök eru of algeng. Nú þarf að snúa bökum saman, sýna að það sé gaman í fótbolta og skemmtilegast að vinna leiki. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.