„Við undirstrikum líka mikilvægi allra okkar leikmanna“
„Stelpurnar voru frábærar í leiknum. Liðsheildin var gjörsamlega mögnuð, ekki bara á leikdegi heldur alla vikuna,“ sagði annar þjálfara Tindastóls, Óskar Smári Haraldsson frá Brautarholti, í spjalli við Feyki eftir sigurleik Stólastúlkna gegn ÍBV í gær. „Það mættu 20 leikmenn á allar æfingar, mikil samkeppni í okkar hópi að vera í liðinu og teljum við það vera mikilvægan þátt í því að ná í góð úrslit.“
Óskar Smári segir frammistöðu liðsins hafa verið framúrskarandi. „Stelpurnar spiluðu oft á tíðum fanta fótbolta, létu boltann ganga vel á milli sín og opnuðu vörn ÍBV oft á tíðum með góðri spilamennsku.“
Hann segir þjálfarateymið vera mjög stolt af frammistöðu liðsins í leiknum. „En við undirstrikum líka mikilvægi allra okkar leikmanna, ekki bara fyrstu ellefu. Næsti leikur gegn Breiðabliki mun verða erfiður en þetta er frábært veganesti í þann leik,“ segir kappinn helsáttur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.