Vel mætt hjá Rúnari Má

Rúnar Már Sigurjónsson. Myd: PF.
Rúnar Már Sigurjónsson. Myd: PF.

Fótboltakappinn Rúnar Már Sigurjónsson var gestur knattspyrnudeildar Tindastóls í Húsi frítímans nú rétt fyrir áramótin. Sagði hann frá knattspyrnuferli sínum og þátttöku hans  með landsliðinu á EM í sumar. Fjölmenntu ungir og áhugasamir knattspyrnuiðkendur af báðum kynjum sem vildu heyra hvað atvinnumaðurinn hefði að segja. Rúnar Már dró ekkert undan og var ekkert að fegra lífið í atvinnumennskunni sem getur verið erfitt og einmanalegt á köflum þó margar góðar stundir væri það sem gerði atvinnumennskuna spennandi.

Rúnari var tíðrætt um hugarfarið sem væri aðalatriðið í þessum heimi. Alltaf að halda fókus og vera jákvæður sama hvað á dynur. Hann sagði að þrátt fyrir að þekkja marga úr boltanum þá væru þeir fáir vinirnir sem hann gæti treyst því alltaf væri samkeppni og oft þannig að einhver kemst áfram þegar öðrum gangi illa.

Rúnar sagðist hafa viljað segja frá þessum neikvæðu hlutum líka til þess að þeir kæmu ekki á óvart ef einhver í salnum ætti eftir að fara út í atvinnumennsku og nefndi það að hann hefði viljað fá að heyra um þá áður en hann hóf sinn feril. Þrátt fyrir harðan heim sagðist hann ekki vilja gera neitt annað, að spila fótbolta væri það sem hann kynni og myndi hugsanlega alltaf vinna við fótbolta á einhvern hátt. Á eftir fróðlegum fyrirlestri Rúnars svaraði hann spurningum forvitinna gesta og gaf svo kost á eiginhandaráritunum sem féll vel í kramið hjá unga fólkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir