Valur númeri stærri en Stólar
Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu kvenna í gær er þær lögðu Tindastól á heimavelli sínum á Hlíðarenda með sannfærandi hætti og miklu markaregni. Áður en yfir lauk höfðu Valsarar sent boltann sex sinnum í mark Stóla sem náðu þó að svara fyrir sig með einu marki úr víti í lokin.
Valskonur hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í Pepsi Max deild kvenna þetta tímabil og því löngu ljóst að lið Tindastóls ætti erfiða baráttu fyrir höndum, eða fótum, í þessum leik. Valsarar voru heldur ekki að spara sig í gær þar sem Íslandsmeistaratitillinn var þeirra með sigri yfir gestunum. Í byrjunarliði Vals mátti sjá sex leikmenn sem spilað hafa með landsliði Íslands; markmanninn Söndru Sif (36 leikir), Láru Kristínu (2), Mist Edvards (13), Elísu Viðars (40), Elínu Mettu ( 58) og Dóru Maríu (114). Þá er nú ekki slæmt að fá inn af bekknum Fanndísi Friðriksdóttur sem leikið hefur 109 landsleiki.
Það var Elín Mertta sem hóf veisluna með marki strax í upphafi leiks á 6. mínútu og annað markið kom hálftíma síðar en það gerði Cyera Makenzie Hintzen. Skömmu áður urðu Stólar fyrir áfalli þegar Laura-Roxana Rus þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Inn á fyrir hana kom Aldís María Jóhannsdóttir sem sjálf á í meiðslum enda þurfti hún að fara út af á 70. mínútu. Inn á fyrir hana kom Sylvía Birgisdóttir en áður en þau skipti fóru fram hafði Amber Kristin Michel þurft að sækja boltann fjórum sinnum í markið.
Á 84. mínútu náði Jacqueline Altschuld að klóra í bakkann fyrir Tindastól er hún skoraði úr víti eftir að Murielle Tiernan hafði verið tekin niður í vítateig Valsstúlkna. Í blálokin skoraði varamaðurinn Fanndís Friðriksdóttir sitt annað mark í leiknum og niðurstaðan 6 – 1 fyrir Íslandsmeisturunum.
Þrátt fyrir stórt tap er ekki hægt að segja að Stólar hafi átt lélegan leik eða staðið sig illa. Valsstúlkurnar eru einfaldlega númeri of stórar.
Það er gott fyrir alla Stóla að þessum leik er lokið svo hægt sé að einbeita sér að lokabaráttunni en segja má að þrjú lið séu að berjast fyrir lífi sínu í efstu deild, þó ÍBV, fjórða neðsta liðið geti fallið. Það eru auk Tindastóls, sem situr á botninum með 11 stig, Fylkir og Keflavík sem bæði eru með 12 stig. Þrjár umferðir eru eftir en Suðurnesjaliðið á einn leik til góða sem fram fer í dag en þá mæta þær liði Breiðabliks. Möguleikar Tindastóls að halda sér uppi felast í því að vinna a.m.k. tvo leiki og treysta á að Keflavík og Fylkir misstígi sig í sinni baráttu.
Það er allt hægt ... Áfram Tindastóls!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.