USAH fagnaði 110 ára afmæli í gær
„Þetta gekk fínt og allir fóru út ánægðir,“ segir Snjólaug Jónsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur-Húnvetninga (USAH) en sambandið fagnaði 110 ára afmæli með glæsilegri veislu á Blönduósi í gær. Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, var á meðal gesta afmælisins ásamt þeim Andra Stefánssyni og Hafsteini Pálssyni frá ÍSÍ, fulltrúum aðildarfélaga USAH og sveitarfélaga. Þetta kemur fram á heimasíðu UMFÍ.
Þar segir einnig að Gunnar Þór hafi afhent Snjólaugu viðurkenningarskjöld frá UMFÍ í tilefni dagsins og sagði stjórn, sjálfboðaliða og starfsfólk aðildarfélaga USAH hafa tekist afar vel að vinna með öðrum og efna til ýmissa samstarfsverkefna. Svo vel hafi tekist til að UMFÍ hafi á dögunum veitt sambandinu Hvatningarverðlaun fyrir verkefni sem stuðlað hefur að góðu og árangursríku samstarfi á milli félaga á svæði USAH allt inn í Skagafjörð.
„Það er til fyrirmyndar því samvinna og samstarf er lykill til framtíðar. Enginn er eyland og enginn gerir neitt einn. Þess vegna skiptir öllu máli að ná til þeirra sem af einhverjum sökum eru ekki með,“ sagði hann og vakti athygli á því að gögn úr Ánægjuvoginni, samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ, sýni að börnum á Norðurlandi líki vel við íþróttafélög sín og þjálfara.
Sjá nánar á Umfi.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.