Upplýsinga beðið um skaðsemi dekkjakurls
Umræður um dekkjakurl á sparkvöllum, sem er að finna á flestum þéttbýlisstöðum landsins, hafa ekki farið framhjá neinum sem fylgst hafa með fréttum undanfarna dag. Ljóst virðist að kurlið innihaldi skaðsöm efni og því er víða verið að undirbúa aðgerðir til að skipta því út fyrir annars konar efni, en kurlinu er dreift sem uppfyllingarefni yfir gervigras á sparkvöllum.
Í Húnaþingi vestra eru til að mynda tveir sparkvellir, staðsettir við Grunnskólann á Hvammstanga og Grunnskólann á Borðeyri. „Það liggur fyrir að skipta um gúmmíkurl á sparköllunum, leiði rannsókn í ljós að kurlið innihaldi skaðsöm efni , með tilliti til umhverfis- og heilsu, yfir hættumörkum," sagði Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, í samtali við Feyki í dag. „Ekkert verður þó hafst við fyrr en yfirvöld gefa út leyfilegt efnainnihald þess efnis sem nota skal í stað dekkjakurls,“ sagði Guðný ennfremur.
Á Skagaströnd er einn gervigrasvöllur. „Ákvörðun um endurnýjun efnis í honum hefur ekki verið tekin, enda liggur ekkert fyrir um raunverulega skaðsemi þess efnis sem á hann var sett eða hvað má yfirleitt nota í stað þess sem nú er,“ sagði Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, þegar Feykir hafði samband við hann fyrr í dag.
Í Húnavatnshreppi er sparkvöllur staðsettur við Húnavallaskóla og var skipt um gúmmíkurl á þeim velli. „Ef rannsóknir leiða það í ljós að það nýja kurl innihaldi skaðsöm efni, m.t.t. umhverfis- og heilsu, yfir hættumörkum mun verða skipt aftur um gúmmíkurl á vellinum,“ sagði Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri í Húnavatnshreppi í svari við fyrirspurn frá Feyki í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.