Unglingalandsmóti og Landsmóti 50+ frestað
Það þykir ekki skemmtilegt að fresta góðum viðburðum eða greina frá því, en svona er nú staðan í dag og ættum við að vera orðin nokkuð sjóuð í því að taka hlutunum með stóískri ró. Þau tvö landsmót sem áttu að vera haldin á vegum UMFÍ í sumar, unglinga og 50+, hafa nú verið frestað.
Ekki er talið unnt að halda þessi mót miðað við núverandi samkomutakmarkanir og ástandið í þjóðfélaginu. Unglingalandsmótið átti að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmót 50+ í Borgarnesi dagana 27. – 29. ágúst. Stefnt er að því að halda bæði mótin á sömu stöðum að ári liðnu.
„Þetta er afar þungbær og erfið ákvörðun. Við erum með tárin í augunum því margir hafa lagt hart að sér að gera það að veruleika og mörg börn og ungmenni búin að áforma að njóta helgarinnar með fjölskyldum sínum og vinum. Því miður er ómögulegt að halda mótið með ábyrgum hætti innan þeirra takmarkana sem settar hafa verið og því verðum við að fresta mótinu,“ sagði Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts, í tilkynningu sem UMFÍ sendi frá sér.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.