Tveir leikir hjá 10.fl. drengja
Það voru fáir leikir á dagskrá hjá yngri flokkum Tindastóls um helgina, einungis tveir leikir, og voru það drengirnir í 10.fl. sem spiluðu á móti Hetti í MVA-höllinni á Egilsstöðum. Fyrri leikurinn var spilaður á laugardeginum og seinni á sunnudeginum.
Farið var af stað á laugardagsmorgni með sjö leikmenn og eitthvað hefur bílferðin farið illa í okkar stráka því þeir sáu aldrei til sólar í fyrri leiknum og voru, því miður, undir allan leikinn sem endaði 62-53. Í leiknum á sunnudeginum var allt annar bragur á liðinu og greinilegt að þeir voru búnir að finna nýjar leiðir að körfunni og loka vörninni því á löngum köflum voru þeir yfir og spiluðu frábærlega. Það var svo ekki fyrr en tvær mínútur voru eftir að þeir komust í villuvandræði og gengu Hattarmenn á lagið og komust yfir og sigruðu 87-82.
Ferðin var vel nýtt í hópefli og þar sem ekkert sjónvarp og engar tölvur voru á gistiheimilinu var slegið upp pub quiz og spilað. Þá skelltu þeir sér einnig á Vök en það eru heitar náttúrlaugar sem staðsettar eru á bökkum Urriðavatns 5 km frá Egilsstöðum.
Strákarnir sitja núna í 2. sæti í 2. deildinni með 12 stig eftir 9 leiki (6 sigra/3 töp) en ÍR situr á toppnum með 14 stig eftir átta leiki. Næstu leikir hjá 10.fl. eru ekki fyrr en 7. og 8. janúar og þá á móti ÍR í Síkinu. Vonumst við til að sjá sem flesta á pöllunum að styðja við strákan okkar. / Hjalti Vignir Sævaldsson/SG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.