Tveir frá UMSS fengu viðurkenningar frá FRÍ

Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttakappi. Mynd af isi.is.
Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttakappi. Mynd af isi.is.

„Á sérstökum tímum þarf sérstaka nálgun og það var raunin með uppskeruhátíð FRÍ fyrir árið 2021,“ segir á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins en uppgjör á árangri og val á frjálsíþróttakarli og -konu og veitingar viðurkenninga í hinum ýmsu flokkum fóru fram með óhefðbundnum hætti að þessu sinni.

Tveir kappar frá UMSS voru verðlaunaðir fyrir afrek sín á árinu, Ísak Óli Traustason sem fjölþrautarkarl ársins og Þorkell Stefánsson fyrir besta afrek karlkyns öldunga.

Í meðfylgjandi myndbandi FRÍ er rætt er við alla verðlaunahafa og þeir spurðir m.a. hvað hafi staðið upp úr á tímabilinu. Ísak Óli segir það hafa verið að bæta sig í sjöþraut. Í afrekaskrá FRÍ sést að hann hefur bætt þrjú persónuleg met sín á árinu; í hástökki, kúluvarpi og 100 m spretthlaupi.

Þorkell Stefánsson kom til liðs við UMSS í upphafi árs frá ÍR en hann hefur lengi keppt í hlaupum í ýmsum vegalengdum. Hann gerði sér lítið fyrir í sumar og bætti sinn besta árangur í 100 metra hlaupi sem hann bjóst ekki alveg við, eins og heyra má í myndbandinu.

HÉR er hægt að sjá alla viðurkenningahafa FRÍ 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir