Tuttugu þúsund Tólfur á Stade de France
Króksarinn Styrmir Gíslason er einna fremstur í fylkingu stuðningsmanna íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi. Styrmir er stofnandi stuðningsmannasveitarinnar Tólfunar. „Þetta snýst um að vera tólfti maðurinn á bak við liðið okkar á vellinum. Þegar á móti blæs þá öskrum við aðeins hærra til þess að koma þeim þangað sem þeir þurfa að komast,“ útskýrði Styrmir þegar blaðamaður Feykis heyrði í honum hljóðið fyrr í vikunni, sem var óneitanlega orðið fremur rámt.
Fjallað er um Norðvestlendinga á EM í Frakklandi í Feyki sem kemur út í dag. Þar er m.a. viðtal við Styrmi og þar segir hann rafmagnaða stemningu vera í París, Íslendingar finni fyrir mikilli velvild frá öllum þeim sem á vegi þeirra verða, nema að sjálfsögðu Austurríkismönnum. Spurður út í upphaf Tólfunnar sagðist Styrmir hafa orðinn langþreyttan á stemningsleysinu sem var í kringum íslensku landsliðin.
„Ég og nokkrir félagar fórum og gengum á milli stuðningssveita og reyndum að fá menn í lið með okkur,“ sagði hann. Aðspurður um fjölda meðlima segir hann eins og er skipti þeir tugþúsundum. „Það hefur alltaf verið sagt að ef þú vilt vera í Tólfunni, ert í bláu, kátur og vilt syngja með, þá ertu automatískt í Tólfunni. Ég myndi segja að á Stade de France á miðvikudaginn þá verða örugglega tuttugu þúsund Tólfur.“
Styrmir segist hafa góða tilfinningu fyrir leiknum gegn Austurríki sem hefst kl. 16 í dag. „Við verðum vonandi tuttugu þúsund á pöllunum og við öskrum þá áfram í 2:1 sigur. Ég hef sagt það frá alveg frá fyrsta degi, strax og ég sá liðin þá hugsaði ég með mér, að við förum uppúr þessum riðli - það er klárt. Áfram Ísland og áfram Tindastóll,“ segir Styrmir að lokum.
Sem fyrr segir má lesa viðtalið við Styrmi, um Tólfuna og Evrópumótið í Frakklandi í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.