Tuðrusparkarar bætast í hópa norðanliðanna

Leikmannaglugginn er galopinn í fótboltanum og norðanliðin hafa verið að leitast eftir því að styrkja sig fyrir lokaátökin framundan. Tveir leikmenn hafa gengið til liðs við karlalið Tindastóls og sömuleiðis hafa tveir kappar bæst í hópinn hjá Kormáki/Hvöt. Áður hefur verið sagt frá viðbótinni sem Stólastúlkur fengu.

Það hefur verið óttalegt skrölt á liði Tindastóls í 3. deildinni og liðið er sem stendur í fallsæti. Það var því morgunljóst að það þurfti að leitast eftir því að styrkja hópinn. Nú í vikunni skrifaði Davíð Guðrúnarson undir hjá Stólunum en hann lék áður með liði KV í Vesturbænum og Kórdrengjum. Hann er er rúmlega þrítugur og á að baki 152 leiki í meistaraflokki en í þeim hefur hann skorað 20 mörk. Þá hefur Marko Zivkovic skipt úr Leikni Reykjavík til Stólanna en hann er fæddur 2002 og á að baki tvo leiki með meistaraflokki Leiknis. Marko er alinn upp á Blönduósi til 12 ára aldurs að sögn Hauks Skúlasonar þjálfara Tindastóls. Haukur segir Tindastólsmenn vera opna fyrir frekari liðsstyrk en á þessu augnabliki er ekkert ákveðið í þeim efnum.

Þá hafa kannski einhverjir áhugasamir um félagaskipti leikmanna rekið augun í að ein stúlka skipti í vikunni yfir í Tindastól úr liði Fjölnis í Grafarvoginum. Það er Ronja Guðrún Kristjánsdóttir. Hún er nú bara 15 ára gömul, bráðefnileg, en fjölskyldan er að færa sig norður.

Anton Freyr og Gylfi í Kormák/Hvöt

Lið Kormáks/Hvatar hefur fengið liðsstyrk í þeim Antoni Frey Jónssyni og Gylfa Tryggvasyni. Anton hóf sinn feril með liði Dalvíkur/Reynis en lék síðast í Mosfellsbænum með liði Álafoss. Gylfi er sömuleiðis fæddur 1995 en hann hefur allan sinn meistaraflokksferil spilað með liði Elliða í Árbænum. Einn leikmaður hefur yfirgefið Húnvetningana en Hjörtur Þór Magnússon hefur skipt yfir í lið Álafoss en hann hefur til langs tíma leikið með Kormáki/Hvöt en náði aðeins einum leik í sumar. Það er því augljóst að lið Kormáks/Hvatar ætlar sér ekkert annað en að tryggja sér langþráð sæti í 3. deildinni að ári.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir