„Trúin flytur fjöll“ segir Guðni Þór
Síðasta umferðin í Pepsi Max deild kvenna fer fram nú um helgina. Það er á brattann að sækja fyrir lið Tindastóls og sennilega bara allra bjartsýnustu menn og konur sem reikna fastlega með að liðið haldi sæti sínu í deildinni. En miði er möguleiki og Stólastúlkur þurfa fyrst og síðast að einbeita sér að því að sigra lið Stjörnunnar þegar liðin mætast á sunnudaginn. Feykir tók stöðuna með Guðna Þór Einarssyni í þjálfaragengi Stólanna og hann segir að leikurinn verði lagður upp svipað og gegn Selfossi um síðustu helgi.
„Við ætlum að fara hátt á völlinn og við þurfum að skora nokkur mörk og á sama tíma halda markinu okkar hreinu. Þótt við þurfum að treysta á hagkvæm úrslit á Akureyri ætlum við að einbeita okkur alfarið að okkur og klára okkar leik og sjá svo til hvaerju það skilar okkur í lokin.“
Hvernig er staðan á liðinu. Eru allir heilir og til í slaginn? „Frá síðasta leik hafa þær Lala og Nadin kvatt okkur en annars er staðan bara góð og við erum klár í verkefnið.
Einhver skilaboð til stuðningsmanna Tindastóls? „Trúin flytur fjöll hefur oft verið sagt og nú á það vel við. Við fengum frábæran stuðning frá ykkur á Selfossi og það skilaði okkur frábærum sigri, þið voruð eins og tólfti maður á vellinum. Á sunnudaginn þurfum við á öllum ykkar stuðningi að halda. Hvet alla til að mæta og hvetja stelpurnar áfram í síðasta leik sumarsins. Þetta er ekki búið fyrr en það er búið,“ segir Guðni að lokum.
Lið Tindastóls er næstneðst en eiga möguleika á að komast upp fyrir lið Keflavíkur í áttunda sæti. TIl þess þarf lið Tindastóls að vinna Stjörnuna og Þór/KA að vinna lið Keflavíkur. Það eitt og sér dugar ekki því það þarf að verða sex marka sveifla á markatölu liðanna til að lið Tindastóls eigi möguleika á að halda sér í efstu deild.
Leikurinn hefst kl. 14 og samkvæmt upplýsingum Feykis munu hamborgarasérfræðingar 3. flokks verða á staðnum og grilla gómsæta borgara ofan í glorsoltna stuðningsmenn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.