Tólf útileikir hjá yngri flokkum Tindastóls um helgina
Fyrir helgi fóru þrjú lið frá yngri flokkum Tindastóls af stað út fyrir Skagafjörðinn að spila alls tólf leiki og voru þetta 8. fl. stúlkna, 8.fl. drengja og svo MB11 strákar. Af þessum tólf leikjum voru fimm sigrar og sjö töp þar sem allir gerðu sitt besta og voru sér og Tindastól til sóma.
Strákarnir í MB11 lögðu af stað til Grindavíkur á föstudaginn á fjölliðamót þar sem þeir áttu fjóra leiki í c-riðli í HS Orku höllinni. Spilað var tvo leiki á laugardeginum og tvo á sunnudeginum og var gist í skólanum í Grindavík. Að sjálfsögðu var stuð á drengjunum og komu þeir heim með tvo sigra og tvö töp eftir mikla baráttuleiki. Þeir stóðu sig afburðar vel ásamt þjálfaranum þeirra, Friðriki Hrafni Jóhannssyni, sem stýrði strákunum á mótinu. Næsta fjölliðamót verður 4.-5. febrúar í Grafarvoginum hjá Fjölni og verður gaman að fylgjast með þeim þar.
Úrslit leikjanna:
Tindastóll – Valur b 39-36
Tindastóll – Fjölnir b 31-16
Tindastóll – Haukar b 27-30
Tindastóll – Valur b 29-32
8.fl. stúlkna brunaði svo í Borgarnes og átti þar fjóra leiki í d-riðli, tvo á laugardeginum og tvo á sunnudeginum. Þær töpuðu því miður öllum sínum leikjum en eru að sýna miklar framfarir í hverjum leik sem spilað er. Þarna eru á ferðinni flottar stelpur sem eiga framtíðina fyrir sér og eiga þær næstu leiki 4.-5. febrúar.
Úrslit leikjanna:
Tindastóll – Grindavík 17-31
Tindastóll – KR b 17-29
Tindastóll – Skallagrímur 2-15
Tindastóll – Þór Ak/Samherjar 29-33
Í Kennaraháskólanum í Reykjavík spiluðu 8. fl. drengja fjóra leiki í d-riðli um helgina, tvo á laugardeginum og tvo á sunnudeginum. Þeir unnu þrjá leiki og töpuðu einum. Þeir hafa unnið sjö leiki af ellefu þar sem af er vetri og eru í harðri baráttu við að komast upp í c-riðil. Flottir strákar hér á ferð sem eiga einnig næstu leiki helgina 4.-5. febrúar.
Úrslit leikjanna:
Tindastóll – Ármann 40-35
Tindastóll – Þór Ak. B 30-26
Tindastóll – Selfoss 53-34
Tindastóll – Keflavík 20-43
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.