Tólf sigrar og tvö töp uppskera sumarsins hjá Kormáki/Hvöt
Lið Kormáks/Hvatar spilaði síðasta leik sinn í riðlakeppni 4. deildar í gær en þá héldu Húnvetningar í Eyjafjörðinn þar sem þeir mættu Samherjum á Hrafnagilsvelli. Það var svo sem ekki mikið undir annað en heiðurinn því sæti Kormáks/Hvatar í úrslitakeppni 4. deildar var löngu tryggt. Það fór svo að stigin þrjú fóru með Húnvetningum heim en lokatölur voru 0-1.
Markalaust var í fyrri hálfleik en það var síðan á 51. mínútu sem stríðsmaðurinn síungi, Bjarki Már Árnason, gerði eina mark leiksins. Boltinn barst til hans á fjærstöng þar sem hann lúrði eins og hungraður úlfur og skóflaði boltanum af öryggi í markið eftir að varnarmaður Samherja komst fyrir skot frá Akil DeFreitas í kjölfarið á stuttri hornspyrnu.
Samkvæmt vef KSÍ er þetta mark númer 42 í 351 leik hjá þessum höfðingja – ekki slæm uppskera hjá varnarmanni. Lið Kormáks/Hvatar vann tólf leiki í sumar og tapaði tveimur undir stjórn Ingva Rafns þjálfara og enduðu riðlakeppnina því með 36 stig og markatöluna 41-14. Það dugði þó ekki til að ná toppsætinu því Vængir Júpiters gerði enn betur, vann þrettán leiki og tapaði einum – gegn Húnvetningum á Sauðárkróksvelli.
Sem liðið sem endaði í öðru sæti D-riðils þá mun lið Kormáks/Hvatar mæta liðinu sem hafnar í efsta sæti C-riðils þegar úrslitakeppnin hefst nk. föstudag. Að öllum líkindum verður það lið Álftaness sem verður mótherjinn en þeir spila síðasta leik sinn í dag á Ólafsvík og ættu að eiga sigurinn vísan og þar með taka efsta sæti riðilsins af liði Ýmis. Það má reikna með erfiðum slag gegn forsetaliðinu en Álftnesingar hafa rokkað upp og niður milli deilda síðustu árin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.