Tökum vel á móti Eijlert Björkmann
Knattspyrnudeild Tindastóls hefur ráðið Eijlert Björkman til starfa hjá félaginu. Eijlert er sænskur þjalfari með mikla reynslu og mikinnmetnað. Samkvæmt heimildum Feykis er hann ráðinn inn sem þjálfari 2. og 3. flokks karla og verður aðstoðarþjálfari með Donna í meistaraflokkum félagsins. Að auki mun hann sjá um knattspyrnuakademíuna í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og koma að frekari þjalfun. Feykir hafði samband við yfirþjálfara knattspyrnudeildarinnar, Donna Sigurðsson, og spurði hann aðeins út í Eijlert og það sem framundan er hjá Tindastólsliðunum.
„Eijlert Björkmann var ráðinn til þess að vera aðalþjálfari endurvakins 2. flokks karla ásamt 3.flokk karla. Auk þess sem að Eijlert verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks,“ segir Donni. „Hann mun einnig koma mikið að æfingum yngri flokka félagsins þar sem hann mun vera þjálfurum innan handar og leggja sitt af mörkum við að gera okkar yngri leikmenn betri.“
Er þetta reynslumikill þjálfari? „Eijlert kemur inn í félagið með gríðarlega reynslu og fagmennsku. Hann er með UEFA Pro þjálfaragráðu sem er æðsta þjálfaragráðan sem hægt er að ná sér í ásamt því að vera með rúmlega 40 ára reynslu í þjálfun. Hann hefur mest unnið hjá stórum félögum í Svíþjóð á borð við IFK Gautaborg, Stabæk í Noregi og Djurgarden svo eitthvað sem nefnt, auk þess að hafa þjálfað í úrvarlsdeild kvenna í Svíþjóð og yngri kvennalandsliðum Svía. Einnig mun Eijlert sjá um knattspyrnuakademíuna í FNV og miðla þar af sinni visku og reynslu til metnaðarfullra leikmanna,“ segir Donni og heldur áfram: „Ég tel okkur gríðarlega heppin að fá svona reynslumikin þjálfara til okkar og tel mikilvægt að við sem samfélag tökum vel á móti honum því ég vonast til að við fáum að njóta hans krafta sem lengst.
Hvernig hafa æfingar gengið í haust og það sem af er vetri? „Æfingar hafa gengið frábærlega núna í haust og vetur. Við höfum verið að láta stelpur og stráka æfa mikið saman með að mínu mati góðum árangri. Höfum fengið útúr því stærri hópa og mikla ákefð. Leikmenn fá að æfa sig í sinni leikstöðu að miklu leyti og í raun æfa sig og bæta sig í því sem þarf. Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp líkamlega þátt leikmanna og höfum fengið til liðs við okkur Ísak Óla Traustason til að aðstoða okkur við það. Við höfum æft fimm sinnum í viku með bæði meistaraflokka og annan og þriðja flokk karla og kvenna og finnum mikinn metnað og góð viðbrögð hjá leikmönnunum. Við viljum að bæði kk og kvk upplifi sig sem ein heild og við erum að vinna að sömu markmiðum bæði leikfræðilega, líkamlega og tæknilega.“
Er hugur í Tindastólsfólki fyrir komandi sumar? „Það er svakalegur hugur í Tindastólsfólki og saman ætlum við okkur að gera samfélagið okkar hér á Norðurlandi vestra stolt af okkur. En fyrst og fremst að leggja okkur fram öll sem eitt.
Er einhverjir leikir framundan hjá meistaraflokkunum? „Meistaraflokkur karla mun spila sinn fyrsta leik í Kjarnafæðimótinu miðvikudaginn 8. desember í Boganum kl. 20:30 [í kvöld] og síðan aftur 18. desember. Meistaraflokkur kvenna byrjar í Kjarnafæðimótinu eftir áramót þar sem Hamrarnir drógu sig úr keppni en við áttum leik við þær í des. Mfl.kvenna spilar hins vegar reglulega við strákana á svæðinu, bæði 2/3 fl. karla og svo 4. fl karla.
„Við vonumst til að samfélagið styðji við bakið á okkur því saman munum við ná árangri og efla allt okkar knattspyrnufólk,“ bætir Donni við í lokin. „Við leggjum mikla áherslu á yngri flokkana okkar og ætlum okkur að gera það eins vel og kostur er. Byggjum til framtíðar á Norðurlandi vestra!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.