Tíu þúsundasti gesturinn mætti í Stólinn í gær
Í gær náðist sá merki áfangi á skíðasvæðinu í Tindastóli að tíu þúsundasti gestur vetrarins mætti á svæðið. Var honum vel fagnað, skellt var í flugeldatertu og að sjálfsögðu var viðkomandi verðlaunaður. „Þetta er stór afrek hjá okkur á svæðinu en þetta er stærsti vetur frá upphafi skíðasvæðisins,“ segir Sigurður Hauksson staðarhaldari í Stólnum.
Að sögn Sigurðar hefur verið góð aðsókn að svæðinu undanfarna mánuði, þrátt fyrir kófið, þar sem fjöldskyldur og æfingalið hafa notið sín í brekkunum. Það styttist í að svæðið nái 70 opnunardögum í vetur, enda hefur veður verið gott og færðin fín, sem er talsverð breyting frá síðustu vetrum.
Hvað er framundan? „Stefnt er að því að halda snowcross mót um næstu helgi sem býður upp á líf og fjör í brekkunum. Mikill snjór er ennþá á svæðinu og er akkúrat núna tíminn til að skella sér á skíði í þessu skemmtilega vorfæri,“ segir staðarhaldarinn kampakátur. Óhætt er að fullyrða að skíðasvæðið í Tindastóli hafi stimplað sig rækilega inn á skíðasvæðakort landans í vetur – sumir segja jafnvel að Stóllinn sé hittarinn í ár – enda býður Stóllinn upp á frábært svæði fyrir þá sem vilja ganga á skíðum, brekkan er ein sú lengsta á landinu og Tindastóll frábær fyrir fjallaskíðafólk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.