Tíu marka tryllir suður með sjó
Reynir Sandgerði og Tindastóll mættust í dag í alveg steindauðum [djók] tíu marka trylli suður með sjó í 17. umferð 3. deildar. Leikurinn var eins og tölurnar gefa til kynna alveg bráðfjörugur og sviptingarnar miklar. Stólarnir komust snemma í 0-2 en heimamenn gerðu næstu fjögur mörk. Gestirnir gáfust ekki upp, jöfnuðu leikinn og héldu að þeir hefðu stolið öllum stigunum með marki á 89. mínútu. En þetta var bara þannig leikur að heimamenn hlutu að jafna, sem þeir og gerðu, og lokatölur 5-5.
Fyrsta markið gerði Sewa á 12. mínútu eftir að hafa fengið glæsilega utanfótar langsnuddu frá Pablo. Konni bætti við öðru mark fjórum mínútum síðar eftir laglega sókn. Luke kom með boltann upp vinstri kant, sendi boltann síðan á Konna sem splæsti í þríhyrnig með Sewa og opnuðu þannig vörn Reynis upp á gátt og síðan lyfti Konni boltanum yfir markvörðinn og í markið. Elton Barros minnkaði muninn á 24. mínútu með hálf slysalegu marki og strax í kjölfarið fór Sewa meiddur af velli. Magnús Þorsteins jafnaði leikinn á 39. mínútu þegar hann kláraði lipurlega færi eftir að hafa fengið laglega innstungu. 2-2 í hálfleik.
Kannski héldu áhorfendur að liðin tækju varnarleikinn í gegn í hléinu og sannarlega var ekkert skorað í hálfleik en mörkunum hélt áfram að rigna í síðari hálfleik. Elton kom heimamönnum yfir á 49. mínútu eftir að Tanner datt á bossann þegar hann ætlaði að senda aftur á Atla Dag í markinu. Guðmundur Gunnarsson kom Reynismönnum í tveggja marka forystu með laglegu skoti í fjærhornið eftir góða sókn. Nú var allt á brattan hjá Stólunum en þeir gáfust ekki upp – síður en svo. Konni náði góðri sendingu fram völlinn og Luke geystist af stað, var sneggri í boltann en markvörður heimamanna sem kom æðandi út úr markinu og Englendingurinn kláraði í opið markið úr þröngu færi. Á 67. mínútu var Konni aftur fljótur að hugsa, tók snögga aukaspyrnu (kannski of snögga) og sendi boltann upp hægri kantinn á Luke sem geystist enn og aftur upp völlinn og reyndi sendingu fyrir markið á Adda. Varnarmanni heimamanna leist ekki á blikuna og renndi boltanum sjálfur í markið.
Allt jafnt og bæði lið æst í stigin þrjú. Fimmta mark Tindastóls kom á 89. mínútu og enn var það Luke sem átti sendingu fyrir markið, Addi náði að reka hausinni í boltann og út í teig þar sem Arnór Guðjónsson mætti svellkaldur og skallaði boltann í markið – hans fyrsta mark fyrir Tindastól í deildarkeppni. Stólarnir reyndu hvað þeir gátu að halda forystunni en á 94. mínútu kom hár og sakleysilegur bolti inn á teiginn, boppaði síðan yfir Jóhann Daða en fyrir aftan hann var Hörður Sveinsson sem hitti boltann vel og sneidd'ann í fjærhornið. Staðan orðin 5-5 og ekki var fjörið úti enn! Reynismenn unnu boltann strax eftir miðju Tindastóls, spiluðu boltanum fram og eins og hendi væri veifað var Elton sloppinn einn inn á teig en sem betur fer setti hann boltann hárfínt yfir markið. Eftir markspyrnu Atla Dags unnu Stólarnir boltann og Luke átti hættulega sendingu sem markvörður Reynis náði að blaka aftur fyrir í horn. Hornspyrnan var góð en markvörðurinn sló boltann frá og dómarinn flautaði leikinn af.
Frábær skemmtun þó eflaust hafi bæði lið verið hálfsvekkt með að hafa ekki hirt öll stigin. Þrjú stig hefðu sannarlega verið kærkomin á Krókinn. Flestir hefðu sennilega fyrirfram þegið eitt stig úr þessum leik því lið Reynis hefur verið á mikilli siglingu í sumar og er sem stendur í öðru sæti deildarinnar. Til að stríða aðeins toppliðum deildarinnar þurftu Tindastólsmenn að vinna þennan leik og þeir voru greinilega gíraðir í það – en jafntefli niðurstaðan. Næsti leikur strákanna er á Fylkisvelli gegn liði Elliða nk. föstudag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.