Tindastólsstúlkur komu tómhentar úr TM-hellinum
Kvennalið Tindastóls í körfubolta spilaði fyrsta leik sinn í rúman mánuð þegar þær héldu suður í Breiðholt í gær þar sem lið ÍR beið þeirra í TM hellinum. Liði Tindastóls hefur gengið brösuglega gegn sterku ÍR liði síðustu misserin og það varð engin breyting á því gær og verður að viðurkennast að lið ÍR er skör hærra á körfuboltasviðinu. Staðan í hálfleik var 48-23 en heimastúlkur slökuðu aðeins á í síðari hálfleik og lokatölur urðu 81-54.
Lið ÍR gerði fyrstu körfu leiksins en Maddie jafnaði, 2-2, og var það í eina skiptið sem ÍR var ekki yfir í leiknum. Heimastúlkur voru yfir, 14-6, eftir fimm mínútna leik en síðari fimm mínútur leikhlutans gekk báðum liðum illa að skora og staðan að leikhlutanum loknum 18-9. Lið ÍR gerði út um leikinn með góðum öðrum leikhluta sem þær unnu 30-14 og munurinn í hálfleik því 25 stig.
Áfram bættu Breiðhyltingar í í þriðja leikhluta en staðan að honum loknum var 70-36. Mestur varð munurinn 40 stig í stöðunni 77-37 og þá setti þjálfari ÍR minni spákonur inn á og lið Tindastóls náði að klóra aðeins í bakkann, unnu leikhlutann að lokum 11-18.
Stólastúlkur töpuðu 20 boltum í leiknum en lið ÍR sex en á móti kemur að okkar stelpur tóku 55 fráköst gegn 41 frákasti ÍR-inga sem var vel gert. Þar fór Maddie Sutton mikinn og tók 28 fráköst eða ríflega helming frákasta liðsins. Hún skoraði síðan rétt tæplega helming stiga liðsins eða 26 en næst stigahæst var Anna Karen sem gerði sjö stig. Lið Tindastóls tók 66 skot í opnum leik og setti niður 18 en heimastúlkur settu niður 30 skot af 77. Illa gekk utan 3ja stiga línunnar þar sem Stólastúlkur settu niður tvö skot (sex stig) á meðan heimastúlkur í ÍR gerðu tíu (30 stig).
Það er auðvitað deginum ljósara að brotthvarf Ksenju, sem kvaddi lið Tindastóls í desember, skilur liðið eftir veikara og enn meiri þungi hvílir á Maddie í leik liðsins. Hún var með 39 framlagspunkta í gærkvöldi en restin af liðinu átta. Það er þó ekkert í boði að hengja haus heldur setja bringuna fram og bíta á jaxlinn. Það er jákvætt að það er stutt í næsta leik en lið KR mætir í Síkið á laugardag og hefst leikurinn kl. 18:00. Engir áhorfendur eru leyfðir en væntanlega verður leikurinn í beinni hjá snillunum í TindastóllTV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.