Tindastólsstúlkur aleinar á toppnum
Kvennalið Tindastóls tók á móti liði Sindra frá Hornafirði í C-riðli 1. deildar í gærdag. Liðin voru fyrir leikinn efst og jöfn í riðlinum með 15 stig en Stólastúlkur áttu tvo leiki inni á hin liðin. Lið Sindra reyndist lítil fyrirstaða þegar á hólminn var komið og heimastúlkur unnu öruggan 6-0 sigur.
Leikurinn fór fram í ljúflingsveðri og fyrsta markið gerði Kolbrún Ósk Hjaltadóttir eftir góðan undirbúning Jesse Shugg. Það var svo með ólíkindum að Jesse fengi ekki vítaspyrnu skömmu fyrir hlé en hún varð þá fyrir meiðslum og var skipt út af rétt áður en flautað var til leikhlés en á meðan hugað var að meiðslum hennar átti Hrafnhildur Björnsdóttir skot í stöng úr aukaspyrnu og síðan skallaði Hugrún Pálsdóttir boltann í markið eftir hornspyrnu. Staðan 2-0 í hálfleik.
Kasey Wyer kom Stólastúlkum í 3-0 eftir hornspyrnu á 54. mínútu og tíu mínútum síðar bætti Vigdís Edda Friðriksdóttir við fjórða markinu, einnig í kjölfarið á hornspyrnu. Kolbrún bætti við öðru marki sínu eftir laglega sókn á 70. mínútu og það var síðan Guðrún Jenný Ágústsdóttir sem gerði sjötta og síðasta mark Tindastólsstúlkna á 83. mínútu.
Stólastúlkur eru í efsta sæti C-riðils með 18 stig eftir sjö leiki og eru með 23 mörk í plús. Þær eiga þrjá leiki eftir og aðeins lið Sindra og Hamranna sem geta jafnað lið Tindastóls að stigum en þá þurfa Stólastúlkur að tapa öllum leikjum sínum og það er ekki að fara að gerast. Þær eru einfaldlega bestar í riðlinum.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Sindra á Hornafirði nú á sunnudaginn og á þriðjudag er síðasti heimaleikur Tindastóls í riðlinum.
Hér er slóð á helstu atriði leiksins af síðu stuðningsmannahóps Tindastóls >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.