Tindastólssigur í fyrsta leik Kjarnafæðimótsins
Þau eru ekki löng fríin í fótboltanum nú um stundir. Lið Tindastóls féll sem kunnugt er niður í 4. deild í haust en það stoðar lítt að staulast um og sleikja sárin. Í fyrrakvöld spiluðu strákarnir fyrsta leik sinn á undirbúningstímabilinu fyrir næsta sumar. Þá mættu þeir liði KA 4 í Boganum á Akureyri í fyrstu umferð Kjarnafæðimótsins. Lokatölur voru 4-1 fyrir Tindastól.
Ánægjulegt var að sjá að Stólarnir mættu til leiks með ansi sterkan hóp. Addi Ólafs var búinn að pússa skotskóna og hann smellti í þrennu í Boganum. Kom Stólunum yfir á 30. mínútu en staðan var 1-0 í hálfleik. Hann bætti við mörkum á 52. og 81. mínútu áður en Jón Gísli Stefánsson bætti við fjórða markinu skömmu fyrir leikslok.
Fín úrslit þó það megi nú að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að það séu langt frá því mestu kanónur KA-manna í KA 4. Á leikskýrslunni á vef KSÍ eru leikmenn KA ekki einu sinni nafngreindir en sjá má mörg falleg nöfn Tindastólsmegin. Þar kemur reyndar fram að Óskar Smári frá Brautarholti hafi skorað fjórða mark Tindastóls en þegar Feykir hafði samband við kappann þá kom hann af fjöllum; kannaðist ekki við að hafa spilað leikinn. Sem er rétt hjá honum. Og nokkrir leikmanna á skýrslu spiluðu leikinn hreint alls ekki.
Byrjunarlið Tindastóls var á þessa leið: Einar í markinu, Svend, Domi, Sverrir og Hólmar í vörninni. Konni, Siggi A, Siggi Stebba á miðjunni og frammi voru Addi, Emil og Jónas. Varamenn Jón Gísli, Johann Daði, Benedikt Þorvalds, Kristófer Ingva, Bragi Skula, Eysteinn og Anton. Sjö af þessum leikmönnum eru enn þá löglegir í 2. flokki.
Lið Tindastóls spilar í B-deild Kjarnafæðimótsins en þar leika auk Stólanna lið Hamranna, Samherja og KA 3 og KA 4.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.