Tindastólsmenn niðurlægðir í Hafnarfirði

Hvað gera bændur nú? Haukur Skúla og Tindastólsmenn þurfa að snúa bökum saman og sýna sínar bestu hliðar í lokaumferðum 3. deildar. MYND: ÓAB
Hvað gera bændur nú? Haukur Skúla og Tindastólsmenn þurfa að snúa bökum saman og sýna sínar bestu hliðar í lokaumferðum 3. deildar. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls hefur dúllað í fallbaráttu 3. deildar í allt sumar, byrjaði mótið illa og þrátt fyrir að hafa á köflum sýnt ágæta leiki þá hefur liðið lekið mörkum á ögurstundu og tapað í leiðinni alltof mörgum stigum. Í gær héldu strákarnir suður í Hafnarfjörð þar sem ÍH tók á móti þeim. Liðin voru með jafnmörg stig fyrir leikinn, voru í tíunda og ellefta sæti deildarinnar, og það mátti því reikna með hörkuleik og hasar. 7-0 í hálfleik fyrir heimamenn var ekki eitthvað sem menn sáu fyrir sér. Lokatölur 8-0 fyrir ÍH og eitt versta tap í sögu Tindastóls döpur staðreynd

Tindastóll hafði unnið fyrri leik liðanna 4-0 og tólf marka sveifla í raun ekkert annað en fáránleg. Arnar Sigþórsson kom sínum mönnum yfir á fjórða mínútu en lið ÍH var níu mínútur að gera þrjú mörk og var bókstaflega búið að tryggja sér sigur eftir 13 mínútna leik. Eftir 14 mínútna markaþurrð fóru heimamenn aftur af stað og nú voru þeir bara átta mínútur að gera þrjú mörk. Staðan 6-0 eftir 35 mínútna leik! Andri Jónasson fullkomnaði þrennu sína með marki rétt fyrir hlé.

Stólarnir stoppuðu betur í götin í síðari hálfleik en Gunnar Óli Björgvinsson kórónaði sigur ÍH með því að skora áttunda mark þeirra á 49. mínútu. Tindastólsmenn unnu slaginn um gulu spjöldin, fengu að líta það sjö sinnum og Sverrir Hrafn þar af tvisvar. Hann fékk reisupassann á 90. mínútu en skömmu áður hafði hat-trick hetja heimamanna raunar farið sömu leið.

Þetta voru á allan hátt hörmuleg úrslit og ekki gott að sjá að Stólarnir nái að rísa úr þessari öskustó. Ekki það að nóg er af stigum í pottinum en það þarf eitthvað mikið að breytast hjá liðinu í síðustu fimm umferðunum svo næsta sumri verði ekki eytt í 4. deildinni.

Lið ÍH er nú með 17 stig og á sex leiki eftir en markatala liðsins (-4) stórbatnaði um leið og markatala Tindastóls, sem var nú bara -5 fyrir leikinn er nú -13. Markatalan gæti mögulega skipt sköpum í lokin. Stólarnir eru nú í næstneðsta sæti en Vopnfirðingar eru í neðsta sæti með 13 stig.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir